Íbúðirnar verði ekki lengi í eigu ríkisins

Katrín Jakobsdóttir ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við metum það svo að þörfin sé mjög rík enn þá til að tryggja Grindvíkingum húsnæði til næstu mánaða. Það er í raun og veru það sem við höfum verið að vinna að í vikunni og felst í því annars vegar að styðja við fólk fjárhagslega til þess að geta þá greitt leigu til næstu þriggja mánaða og að tryggja að það sé aukið framboð af húsnæði.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum um húsnæðisstuðning við Grindvíkinga.

Íbúðirnar fari aftur á markað

Til að mæta húsnæðisþörf Grindvíkinga sem rýma hafa þurft heimili sín hefur m.a. verið leitað til Bríetar leigufélags, sem er að fullu í eigu ríkisins, um að kaupa allt að 150 nýjar íbúðir á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess, til leigu fyrir Grindvíkinga. 

Þá mun Bjarg íbúðafélag koma að því að mæta sérstaklega húsnæðisþörf tekjulægri heimila í Grindavík með mögulegum kaupum á allt að 60 íbúðum.

Miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum, eru þessi hús til?

„Já, þetta byggir í raun og veru á kortlagningu á þeim íbúðum sem hafa verið í byggingu og eru að koma út á markað. Hugsunin er sú að við nýtum Bríeti, þetta leigufélag sem ríkið á, til þess að fjárfesta, til þess að við getum þá leigt tímabundið til þeirra sem eru í mikilli þörf úr hópi Grindvíkinga.“

Að sögn Katrínar er ráðgert að íbúðirnar verði ekki lengi í eigu ríkisins, þær fari aftur út á markað. „Þetta er tímabundið aðgerð þar sem ríkið greiðir fyrir því að tryggja framboð af húsnæði.“

Staðan metin jafnt og þétt

Aðgerðirnar sem voru kynntar í morgun eru hugsaðar til næstu þriggja mánaða. Katrín segir að staðan verði metin jafnt og þétt.

„Það hangir líka á því hvernig Grindvíkingar vilja haga sínum málum.“

Margir vilji snúa aftur á heimili sín við fyrsta tækifæri.

„Við verðum að meta stuðningsþörfina eftir því sem stöðunni vindur fram.“

Hverjir eru það nákvæmlega sem geta fengið húsnæðisstuðninginn?

„Grindvíkingar sem eru með aukinn húsnæðiskostnað vegna þessa og þá snýst það um að þú framvísir skráðum leigusamningi. Stuðningurinn ræðst af því hversu marga þú ert með á heimili og það eru ákveðin þök á honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka