Landris merki um nýjan kvikugang?

Hratt landris hefur mælst nærri Svartsengi.
Hratt landris hefur mælst nærri Svartsengi. mbl.is/Hákon Pálsson

Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild HÍ, segir að mögulegt sé að nýr kvikugangur sé að myndast í ljósi þess landriss sem nú mælist í Svartsengi á Reykjanesskaganum. Páll segir jafnframt að staðan sé flókin sem stendur en á næstu dögum verði ef til vill hægt að meta hvort kvikan í ganginum undir Grindavík hafi storknað.

„Á næstu dögum er ef til vill hægt að finna út úr því hvort gangurinn sé storknaður í gegn. Gangurinn er ekki mjög þykkur og þunnir gangar storkna fljótt. Það sem eykur hins vegar á tvíræðnina er að aftur er bullandi landris í Svartsengi. Þar gæti nýr gangur hreinlega verið í bígerð. Málið er því býsna flókið og margar hliðar á því. Fyrir vikið þarf að halda öllum möguleikum á lofti til að ekkert geti komið mönnum á óvart,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið.

Tvær vikur eru liðnar frá því að harðir jarðskjálftar riðu yfir og ollu miklum skemmdum í Grindavík. Var sveitarfélagið rýmt en slíkir atburðir eru sem betur fer ekki daglegt brauð. Hinn 10. nóvember reið stærsti skjálftinn yfir og var hann 5,0 að stærð.

Skjálftavirknin var mikil um tíma en mjög hefur dregið úr henni eftir því sem frá hefur liðið. Fram hefur komið að jarðvísindamenn Veðurstofunnar telji nú litlar líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur. Grindvíkingar hafa í dag fengið leyfi yfirvalda til að fara inn í bæinn á stærri bifreiðum, allt að 3,5 tonnum að heildarþyngd. Einnig verða kerrur leyfðar í íbúðahverfum.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert