Rannsakendur hafa skoðað langvarandi einkenni Covid-19 í íslenskum börnum. Komust þeir að því að langvarandi einkenni vegna sjúkdómsins eru algeng meðal þeirra og hafa áhrif á lífsgæði barnanna.
Rannsóknin birtist á dögunum í The Pediatric Infectious Disease Journal.
Almennt eru áhrif kórónuveirunnar vægari hjá börnum en fullorðnum. Börn lenda yfirleitt ekki á spítala og dánartíðni er lág. Fáar rannsóknir á langvarandi einkennum vegna sjúkdómsins hafa skoðað börn, einkum þau yngstu.
Í rannsókninni voru 643 íslensk börn spurð út í 10 líkamleg og andleg einkenni í kjölfar kórónuveirusýkingar. Var þeim fylgt eftir ári síðar.
Börn sem höfðu sýkst af sjúkdómnum voru líklegri til að upplifa eitt eða fleiri einkennanna sem skoðuð voru. Einkenni s.s. höfuðverkir, þreyta, hjartsláttartruflanir, öndunarerfiðleikar, einbeitingarskortur, svefnerfiðleikar, kvíði eða þunglyndi og skortur á bragð- og lyktarskyni voru skoðuð.
Þreyta og einbeitingarskortur voru mælanlega algengari í unglingum. Einkenni virðast enn fremur hafa verið almennt meiri meðal unglingsstúlkna en unglingsdrengja.
Ári eftir að rannsóknin hófst hafði um þriðjungur tilfella langvarandi einkenna meðal barnanna læknast. Þau einkenni sem voru hvað mest viðvarandi voru þreyta, kvíði og þunglyndi. Sumir þátttakendur höfðu þó þróað með sér ný og þrálát einkenni að árinu liðnu, svo sem vöðvaverki, höfuðverki og öndunarerfiðleika eða hósta.
Rannsakendur telja mikilvægt að skoða áhrif langvarandi einkenna vegna Covid-19 á börn frekar og skoða fyrirbyggjandi aðgerðir.