Þegar Margrét Albertsdóttir setti inn færslu inn á Facebook-hópinn „Aðstoð við Grindvíkinga“ og spurði hvort einhver vissi um mögulega staði til að hýsa árlegt jólaball leikskólabarna á leikskólanum Króki óraði hana ekki fyrir viðbrögðunum.
Margrét á tvö börn á leikskólanum og eitt sem er nýútskrifað. Hún útskýrir að jólaballið sé haldið árlega.
„Við vildum halda í eitthvað sem væri í rútínunni hjá krökkunum. Þannig að þau fengju að hitta hvert annað.“
Engin úrræði standa leikskólabörnum frá Grindavík til boða til að hittast.
„Ég kíki svo aftur og þá eru komin um tuttugu svör. Maður er þvílíkt auðmjúkur að sjá hvað fólk er tilbúið að hjálpa okkur að láta þetta gerast.“
Foreldrafélaginu, sem stendur fyrir jólaballinu, var boðið að vera í ýmsum skólum og meðal annars ráðhúsi Reykjavíkur. „Við erum bara með valkvíða núna,“ segir Margrét og hlær.
„Þetta voru miklu betri viðbrögð en við gátum búist við. Það er ótrúlegt hvað það eru margir tilbúnir að hjálpa og koma til móts við Grindvíkinga í þessari stöðu. Ég held það gefi mörgum mikinn styrk í þessu.“
Margrét segir börnin ljóma þegar þau fái að hitta vini sína og leikskólafélaga. „Þetta skiptir ótrúlega miklu máli fyrir þau. Þegar þau hitta vini og ná að leika saman þá sér maður að þau ná að gleyma öllu öðru sem er í gangi.
Við færsluna hafa ekki einungis komið boð um að hýsa ballið heldur hefur fólk einnig boðist til að sjá um jólasveinana sem kæmu á það.