Í gær færði norðanátt kaldan loftmassa yfir landið og mældist 16,1 stiga frost við Mývatn í nótt. Allvíða var hægur vindur og bjart yfir, góðar aðstæður fyrir frostið að ná sér á strik.
Í dag blæs svo vindur úr suðri en á vestanverðu landinu má búast við stinningskalda og dálítilli rigningu eða slyddu þegar líður á daginn.
Sunnanáttin færir okkur mildari loftmassa og hitatölurnar þokast upp á við.