Sjá ekki fram á að flytja aftur til Grindavíkur

Björk og sonur hennar, sem er hér á mynd, fóru …
Björk og sonur hennar, sem er hér á mynd, fóru til Grindavíkur í dag til þess að sækja verðmæti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björk Sverrisdóttir sér ekki fram á að flytja aftur til Grindavíkur eftir atburðarás síðustu vikna, þrátt fyrir það að hún hafi búið þar nánast alla sína ævi.

Í dag fór Björk ásamt syni sínum til heimabæjarins til þess að sækja verðmæti, þar sem blaðamaður mbl.is ræddi við hana.

Björk og eiginmaður hennar hafa fengið að dvelja hjá yngsta syni sínum í Hafnarfirði frá því að þau þurftu að yfirgefa Grindavík í skyndi fyrir tveimur vikum vegna yfirvofandi eldgoss. Það er enn margt óljóst með fram­haldið og eru enn tald­ar lík­ur á eld­gosi á svæðinu.

Grindvíkingurinn Björk Sverrisdóttir hefur þegar skrifað undir leigusamning á höfuðborgarsvæðinu …
Grindvíkingurinn Björk Sverrisdóttir hefur þegar skrifað undir leigusamning á höfuðborgarsvæðinu og sér ekki fram á að flytja aftur til Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður verður að vera raunsær“

Hjónin hafa skrifað undir kaupleigusamning fyrir íbúð í Vogunum og eru ekki bjartsýn um að að flytja aftur til Grindavíkur.

„Bærinn er ónýtur. Og hvað gerist? Fólk flytur hingað aftur, það kemur einn jarðskjálfti, allir fá taugaáfall og flytja aftur úr bænum,“ segir hún. „Ég er alin upp hérna. Að keyra hingað er mjög erfitt fyrir mig, og að pakka þessu dóti en maður verður að vera raunsær.“

Þau fá nýja húsnæðið afhent í næstu viku og þá ætla þau sér að flytja húsgögn yfir í nýja heimilið sitt í Vogunum.

„Ég ætla bara að reyna að setja eins mikið í kassana og ég get, svo restina þegar ég fæ húsnæðið,“ segir hún.

Verða að treysta stjórnvöldum

Tíma­bund­inn fjár­hags­leg­ur stuðning­ur vegna auk­ins hús­næðis­kostnaðar verður veitt­ur Grind­vík­ing­um vegna jarðhrær­inga á svæðinu. Björg segir að sér lítist mjög vel á húsnæðisstuðning fyrir Grindvíkinga, sem ríkisstjórnin kynnti í dag.

„Auðvitað veit ég ekki hver stuðningurinn verður en hver króna hjálpar,“ segir hún.

Hvernig finnst þér viðbragð stjórnvalda hafa verið?

„Við verðum bara að treysta þeim og ég held að þau séu búin að vera að standa sig mjög vel. Ég skil það ósköp vel að fólk hefur verið reitt að geta ekki komist hingað en það verður að vera öruggt fyrir okkur að komast inn í bæinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert