Skautasvellið á Ingólfstorgi opnar í dag

Skautasvellið opnar við hátíðlega athöfn í dag.
Skautasvellið opnar við hátíðlega athöfn í dag. mbl.is/Hákon

Stuðsvellið á Ingólfstorgi verður opnað við hátíðlega athöfn í dag. Svellið á Ingólfstorgi hefur hringt inn jólin fyrir unga sem aldna undanfarin ár. 

Það er skautafélag Reykjavíkur sem vígir svellið formlega kl. 18.00 í dag og í kjölfarið mun söngvarinn og listskautadrottningin gugusar halda tónleika á svellinu. Frítt verður á svellið til klukkan 22.00, auk þess sem glimmerbarinn verður á svæðinu og býður upp á andlitsskreytingar. 

Stuðjólasveinar alla laugardaga í desember

Skautasvellið á Ingólfstorgi var fyrst opnað árið 2015 og er þetta því í níunda sinn sem svellið er opnað yfir jólahátíðirnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nova og Orkusölunni sem standa að svellinu. 

Árlega skuta um það bil 20.000 manns inn jólin á Stuðsvellinu. Stuðjólasveinar verða á svæðinu alla laugardaga í desember, tónlistarmenn á borð við Jón Jónsson og Prettyboitjokko halda uppi stuðinu auk þess sem leikhópurinn Fíasól kíkir í heimsókn.

Svellið hringir inn jólin 

„Jólin byrja einfaldlega ekki fyrir mér fyrr en ég tek snúning á Stuðsvellinu. Það er alltaf jafn gaman að opna Stuðsvellið en þetta er í annað sinn sem við gerum það með Orkusölunni og er frábært að vinna saman að þessu. Án stuðsins frá Orkusölunni væri einfaldlega ekkert Stuðsvell. Ég hlakka til að sjá sem flesta,“ er haft eftir Þuríði Björg Guðnadóttur, framkvæmdastjóra upplifunar hjá Nova, í tilkynningunni.  

„Það er langt síðan að Stuðsvellið náði fótfestu sem ein af jólahefðum höfuðborgarsvæðisins og við hjá Orkusölunni vorum ekki lengi að stökkva á vagninn þegar tækifærið gafst. Allt svæðið lifnar við og ekki sakar að Jólaborg Reykjavíkurborgar sprettur upp í kringum Stuðsvellið. Það fer enginn svikinn útaf svæðinu,“ er haft eftir Heiðu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustu hjá Orkusölunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert