Styrkurinn hugsaður fyrir fólk á leigumarkaði

Þórdís Kolbrún ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi.
Þórdís Kolbrún ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að meginþorri Grindvíkinga muni nýta sér húsnæðisstuðning ríkisins. Búið er að áætla hvað heimilin eru mörg og hvernig þau eru samsett. Stuðningurinn er hugsaður til þess að gefa fólki svigrúm til að taka eigin ákvörðun út frá sínum hagsmunum.

Þetta seg­ir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra í sam­tali við mbl.is að lokn­um blaðamanna­fundi í Ráðherra­bú­staðnum um hús­næðisstuðning við Grind­vík­inga.

Gera ráð fyrir að megin þorri íbúa muni nýta sér stuðninginn

Þórdís segir heildarkostnað húsnæðisstuðningsins miðast við heildarfjölda heimila í Grindavík. Búið sé að greina hvað heimilin í Grindavík eru mörg og hvernig þau eru samsett. Síðan verði að koma í ljós hversu margir muni nýta sér úrræðið.

„Við gerum ráð fyrir að megin þorri fólks muni gera það. Við vitum að það eru einstaka fjölskyldur sem hafa gert aðrar ráðstafanir, jafnvel fjarfest í eigin eign, einhverjir hafa farið til síns heimalands þar sem þeir eiga jafnvel annað heimili og þar fram eftir götunum. En við gerum ráð fyrir að meginþorri fólks muni nýta sér þetta og við miðum við þann fjölda og þær tölur,“ segir Þórdís.

Eingöngu hugsað fyrir þau sem eru að leigja íbúðir

Er þetta þá eingöngu hugsað fyrir þau sem eru að leigja íbúðir?

„Já þetta er fyrir þau sem eru að greiða leigu í tímabundnum úrræðum í dag og líka til að létta undir með þeim sem eru í húsnæði til mjög skamms tíma og þurfa að taka aðra ákvörðun, ýmist að færa sig um set eða til að geta greitt leigu,“ segir Þórdís og bætir við:

„Vegna þess að á sama tíma situr fólk á sinni eign í Grindavík þar sem er líka mikil óvissa um hvað verður.“

Almennt úrræði sem gagnast Grindvíkingum á óvissutímum

Í því samhengi veltir hún upp þeim spurningum sem brenna á Grindvíkingum. Hvar sé mögulega altjón, hvar sé mögulega tjón og hvar sé mögulega ekki tjón.

„Þannig að við erum svona að smíða almennt úrræði sem gagnast þeim sem þurfa á því að halda og í raun er sveigjanleiki inni í því, hvernig hver og ein fjölskylda er að taka ákvörðun fyrir sig.“

Aðspurð segir Þórdís tímann verða að leiða framhaldið og næstu skref í ljós. Hvort stuðningurinn verði áframhaldandi og þá til hverra og hversu langs tíma.

„Það hangir á hlutum sem við vitum ekki hvernig þróast. Þannig að þetta er það skref sem að við tökum núna og skiptir þá máli til að veita þetta tímabundna skjól. Svo tökum við málið áfram eftir því hvernig atburðarásinni vindur fram.“

Gagnlegt að sjá frá fyrstu hendi hver staðan raunverulega er

Þórdís heldur til Grindavíkur í dag í hópi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Með í för er einnig Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

„Ég hef ekki farið síðan rýmingin var. Það verður örugglega skrítið, en gagnlegt, að fara þangað. Ég auðvita þekki Grindavík mjög vel og Grindvíkinga. Maðurinn minn er þaðan og við eigum fullt af vinum þar, þannig að það verður örugglega skrítin upplifun að sjá skemmdir, en líka mikilvægt að hafa það í fingrunum og sjá það frá fyrstu hendi hver staðan raunverulega er og hitta björgunarsveitarfólk og aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert