Talið að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RSNA) telur líkur á að ökumaðurinn sem lét lífið í árekstri austur af Vík á síðasta ári hafi sofnað undir stýri stuttu áður en að bílarnir tveir skullu saman. 

Í skýrslu nefndarinnar segir að þann 16. júní 2022 hafi Kia Picanto fólksbifreið ekið norðaustur Suðurlandsveg, þegar Mercedes Benz sendibifreið mætti henni úr gagnstæðri átt. 

Við áreksturinn lét ökumaður Kia-bifreiðarinnar lífið og farþegi bifreiðarinnar slasaðist alvarlega. Ökumaður sendibifreiðarinnar slasaðist lítillega í slysinu.

Í skýrslunni er greint frá því að eigin þyngd Kia-bifreiðarinnar var 902 kílógrömm ásamt ökumanni, farþega og farangurs, en sendibifreiðinni ásamt farmi henni var um þrisvar sinnum þyngri eða um 3.500 kg. 

Þá telur RSNA að ökumaður Kia-bifreiðarinnar hafi dottað rétt fyrir slysið og ekið yfir á vinstri helming vegarins, þegar sendibifreiðinni mætti þeim. 

Vaknaði sennilega ekki áður en slysið varð

Sú ályktun er dregin af rannsókn á búnaði bílsins, sem sýndi að ökumaðurinn ók á stöðugum hraða (88-90 km/klst) í um 17 sekúndur fyrir slysið á sama tíma og hann ók rólega yfir á vinstri vegarhelming, þar sem mjúkri hægri beygju á veginum var nýlokið og beinn kafli tók við. 

Talið er að ökumaður bifreiðarinnar hafi sennilega ekki orðið var við að hann hafi ekið yfir á vinstri vegarhelming að teknu tilliti til aðstæðna á veginum sem lá í mjúkri hægri beygju, lítilla hraðabreytingar á bifreiðinni skömmu fyrir slýsið og skorts á ummerkjum um hemlun eða viðbrögð ökumanns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert