Verið er að fara yfir tillögur um legu varnargarða í kringum Grindavíkurbæ út frá kvikugangi og hvar þeir gætu komið að sem mestu gagni. Almannavarnir eiga von á því að lokahönnunin verði tilbúin um eða eftir helgi, sem og þau gögn sem þörf er á til að hægt verði að leggja fram tillögu um gerð þeirra.
Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem ræddi við blaðamann að loknum upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum í hádeginu. Til stendur að ræða sömuleiðis við nokkra landeigendur á svæðinu í dag vegna garðanna.
„Garðarnir við Grindavík eru teiknaðir sem þríhyrningur í kringum bæinn. Út frá þessum kvikugangi núna verður áhersla lögð á garðinn sem beinir hraunstraumum vestur fyrir Grindavík,” segir Víðir, spurður nánar út í garðana.
Hvað vinnuna við varnargarðana í kringum Svartsengi varðar segir Víðir að hún gangi mjög vel og sé enn á undan áætlun.
„Það er ótrúlegt að horfa á alla þessa verktaka sameinast í að gera þetta verkefni á þetta stuttum tíma.”
Hann segir vinnunni skipt upp í sjö verkþætti sem ekki séu allir byrjaðir. Af þeim þáttum sem eru byrjaðir segir hann vinnuna vera komna á bilinu 30% til 80% áleiðis. Fljótlega eftir helgi verður byrjað á síðustu hlutunum, norðvestast. Hraunlíkön sem voru gerð af svæðinu eru notuð til að forgangsraða hvar brýnasta þörfin er á framkvæmdum.
„Fljótlega eftir helgi verður vinna hafin alls staðar við garðinn og á einhverjum stöðum lokið,” bætir Víðir við en kveðst ekki vita hvenær verkefninu lýkur að fullu. Upphaflega var talað um að framkvæmdirnar tækju 30 til 45 daga.
„Það eru ákveðin svæði sem við erum að fara að byrja á sem eru erfiðari. Það þarf að keyra meira efni,” greinir hann frá. Slíkt taki lengri tíma en ella.
Spurður út í húsnæðisstuðninginn fyrir Grindvíkinga sem var kynntur á upplýsingafundinum segir Víðir hann afar mikilvægan fyrir þá.
„Þetta tryggir að Grindvíkingar geta hugsað til lengri tíma og er í samhengi við það sem við höfum verið að sjá að við séum að horfa á tímabilið talið í mánuðum þangað til hægt verði að tala um að hægt verði að búa með öruggum hætti í Grindavík,” segir Víðir.