Þarf að tryggja aðskilnað fanga og fangahópa

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir nýtt fangelsi bráðnauðsynlegt til þess að …
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir nýtt fangelsi bráðnauðsynlegt til þess að hægt sé að aðskilja fanga. mbl.is/Hari

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir fangelsismálayfirvöld ítrekað hafa bent á mikilvægi þess að tryggja aðskilnað fanga og fangahópa sem sé möguleiki sem aðstaða fangelsisins á Litla-Hrauni bjóði ekki upp á í dag. 

Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning í gær um að fangi á Litla-Hrauni hefði orðið fyr­ir al­var­legri lík­ams­árás af hálfu ann­ars fanga. 

 Nauðsynlegt að tryggja aðskilnað

„Við erum búin að benda á það í mjög mörg ár að við þurfum að tryggja aðskilnað fanga og fangahópa,“ segir Páll. 

„Fangelsið á Litla-Hrauni býður ekki upp á þennan möguleika og það er meðal annars þess vegna sem það stendur til að hanna og byggja nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns.

Önnur meginástæða þessara framkvæmda er að tryggja öryggi allra sem þar dvelja og að geta þá aðskilið hópa. Það hefur verið brýnt í langan tíma og ýmsar eftirlitsstofnanir hafa bent á það að þetta sé nauðsynlegt að gera hér.“ 

Flóknara verkefni

Að sögn Páls hefur verkefnið við að tryggja aðskilnað orðið flóknara með árunum.

„Við höfum í gegnum tíðina þurft að skilja að ákveðna hópa, en það verkefni verður flóknara og flóknara og eftir því sem hópunum fjölgar og tengslin verða flóknari, þeim mun nauðsynlegra er að geta brugðist við og látið byggingarnar leysa þessi öryggismál,“ segir Páll og leggur áherslu á að breyting af þessu tagi sé bráðnauðsynleg til þess að sporna gegn átökum innan fangelsisins. 

Spurður um átökin sem brutust út á milli fanga á Litla-Hrauni í gær segist Páll lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu. 

„Ég get staðfest að þessi líkamsárás átti sér stað. Starfsfólk brást skjótt og örugglega við, lögregla var kölluð til ásamt sjúkrabílum og viðkomandi fluttur á sjúkrahús. Ég hef ekki frekari upplýsingar um líðan þess sem átti sér stað,“ segir Páll loks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert