„Þessi átök þarf að stöðva“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Óttar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í gær á móti 11.723 undirskriftum frá Amnesty International þar sem krafist er vopnahlés á Gasa.

Frá þessu greinir Katrín í færslu á facebook en þar segir hún meðal annars:

„Hörmungunum verður vart lýst sem fylgt hafa hræðilegri árás Hamas á ísraelska borgara þann 7. október og svari ísraelskra stjórnvalda með skelfilegum árásum á óbreytta borgara.“

Þá segir Katrín ákall Íslands eftir vopnahléi hafa verið skýrt.

„Í beinum samskiptum við sendiherra Ísraels hefur verið komið á framfæri þeim sjónarmiðum og kröfum íslenskra stjórnvalda að farið sé að alþjóðalögum og mannúðarrétti, sem og áhyggjum og gagnrýni á herkví Gaza, lokun á vatni og rafmagni og tilskipanir Ísraelshers um nauðaflutninga frá norðurhluta Gaza. 

Óbreyttir borgarar hafa verið fórnarlömb þessara átaka og ótrúlega hátt hlutfall þeirra hefur verið börn. Að sama skapi höfum við kallað eftir því að áfram verði unnið að lausn þess fólks sem er enn í gíslingu Hamas-samtakanna.

Þessi átök þarf að stöðva, ekki tímabundið eins og samkomulag er um, heldur til frambúðar og finna leiðir til að leita sátta og koma á varanlegum friði á svæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert