„Þetta eru einhverjir utanbæjarplebbar“

Þjófnaðurinn átti sér stað í Bolungarvík á laugardagskvöldið.
Þjófnaðurinn átti sér stað í Bolungarvík á laugardagskvöldið. mbl.is

Elvar Sigurgeirsson, vinnuvélaverktaki í Bolungarvík, sem lenti í því að GPS-höttum var stolið af gröfum í hans eigu síðustu helgi, hefur litla trú á því að einhver úr sveitarfélaginu hafi framið verknaðinn. „Þetta eru einhverjir utanbæjarplebbar,“ segir hann. 

Hann grunar granna sína ekki um græsku og hefur trú á hreinni samvisku Bolvíkinga. „Þetta er náttúrulega besta bæjarfélag í heimi. Það er bara svoleiðis,“ segir Elvar. Hann segir mikið traust vera við lýði í bænum. „Bolungarvík er fríríki,“ segir hann og hlær.

Tjónið hleypur á fleiri milljónum

Þjófnaðurinn kemur því eins og þruma úr heiðskíru lofti. En tjónið hleypur á mörgum milljónum. „Ef ég þarf að kaupa þetta allt nýtt eru þetta sennilega sex til átta milljónir. Nær átta, hugsa ég,“ segir Elvar.

„Þetta er hundfúlt.“

GPS-hattar, fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra, eru hæðar og staðsetningamælitæki fyrir vinnuvélar.

Einbeittur brotavilji

Elvar segir glæpinn hafa átt sér stað á laugardagskvöldið. Engu fleira hafi verið stolið svo hann viti til. Óþokkarnir hafi sennilega farið rakleiðis að GPS-höttunum, tekið þá og ekkert annað. Elvar heldur að þeir hafi vitað af þeim fyrirfram.

Elvar er þó hvergi af baki dottinn. Hann segist hafa átt fleiri hatta af öðrum vélum. „Þeir gleymdu tveimur höttum. Það voru teknir fjórir. Þeir hafa ekki vitað að það var önnur vél með hatta líka. Þeir gleymdu þeim.“

Elvar bætir við að 500 þúsund króna verðlaun séu í boði fyrir hvern þann sem geti veitt upplýsingar sem leiða til þess að þrjótarnir og GPS-hattarnir finnist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert