Tjónið ekki teljanlegt á lausamunum

Menningarhúsið Gerðuberg.
Menningarhúsið Gerðuberg. Mynd/Borgarbókasafnið

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í menningarhúsið í Gerðubergi í morgun vegna vatnsleka sem varð þegar loftræstikerfi hússins bilaði. 

„Það gaf sig hita „element“ á annarri hæð í loftræstikerfi hússins þannig að það lak vatn niður í nokkra sali í byggingunni. Það var svolítið blautt þegar við mættum til vinnu í morgun en það voru skjót viðbrögð hjá slökkviliði. Það var lokað fyrir lekann og upp úr klukkan 10 var búið að sjúga upp pollana,“ sagði Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri Borgarbóksafnsins í Gerðubergi, í samtali við mbl.is en Borgarbókarsafnið er með starfsemi á annarri hæð hússins.

Slökkviliðið á stórt hrós skilið

Ilmur segir að það séu skemmdir á gólfefni á sumum stöðum í byggingunni. Hún segir að sem betur fer hafi vatn ekki flætt inn í bókasafnið og aðeins hafi orðið skemmdir á um sex bókum.

„Þetta hefur ekki áhrif á opnunartíma safnsins. Í fyrstu var auglýst um lokun þar sem við vissum ekki hver staðan yrði þegar við komum en safnið er opið og það er fullt af fólki hjá okkur,“ segir Ilmur.

„Þessi leki hefur áhrif á ákveðinn part af húsinu, líklega eina álmu. Þetta fór því betur en á horfðist og tjónið er ekki teljanlegt á lausamunum. Slökkviliðið á stórt hrós skilið og allt starfsfólk bretti upp ermar og hjálpaði til. Það var mikill handagangur í öskjunni,“ segir Ilmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert