Vægari dómar í Landsrétti í stóra kókaínmálinu

Daði Björnsson og Páll Jónsson voru meðal þeirra sem dæmdir …
Daði Björnsson og Páll Jónsson voru meðal þeirra sem dæmdir voru í stóra kókaínmálinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur mildaði í dag dóma yfir fjórum sakborningum í stóra kókaínmálinu. Þeir voru dæmdir fyrir þátt sinn í innflutningi á tæplega 100 kg af kókaíni með timbursendingu, en efnin komust hins vegar aldrei á leiðarenda, þar sem lögreglan í Hollandi gerði þau upptæk. Dómar mannanna voru mildaðir um eitt til eitt og hálft ár hjá hverjum.

Þyngsta dóminn hlaut Páll Jónsson timbursali, en dómur hans var mildaður úr tíu árum í níu ár í Landsrétti. Hann stóð að baki timbursendingarinnar frá Brasilíu sem tollverðir í Hollandi haldlögðu, en efnin voru falin í sjö trjádrumbum.

Landsréttur mildaði einnig dóma yfir hinum þremur. Birgir Halldórsson, sem hafði hlotið átta ára dóm í héraði, hlaut sex og hálft ár í Landsrétti. Dómur Daða Björnssonar, sem fékk sex ár og sex mánuði í héraði, var mildaður í fimm ár og dómur yfir Jóhannesi Páli Durr var mildaður úr sex árum í fimm ár í Landsrétti.

Frá aðalmeðferð stóra kókaínmálsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá aðalmeðferð stóra kókaínmálsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúv greinir frá uppkvaðningu dómsins í dag.

Lögreglan á höfuðborg­ar­svæðinu hóf rann­sókn á málinu á sínum tíma eftir að hafa komist í dulkóðuð skilaboð sem aðilar í saltdreifaramálinu svokallaða sendu sín á milli. Í því máli voru þrír menn fundnir sekir um innflutning á 53 lítrum af amfetamínvökva og að hafa framleitt 117,5 kg af amfetamíni.

Í dul­kóðuðum sam­skipt­um aðila salt­dreifara­máls­ins, sem lög­regla fylgd­ist með, kom fram að von væri á stórri send­ingu á kókaín til lands­ins. Kókaínið var falið í trjá­drumb­um frá Bras­il­íu en Páll var, að sögn lög­reglu­, eini aðil­inn hér á landi sem flutti inn timb­ur frá því landi.

Stóra kókaínmálið í héraði.
Stóra kókaínmálið í héraði. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert