Vona að sem flestir Grindvíkingar snúi aftur heim

Hjónin Valgerður Ágústsdóttir og Steinþór Júlíusson sóttu verðmæti á heimili …
Hjónin Valgerður Ágústsdóttir og Steinþór Júlíusson sóttu verðmæti á heimili sitt í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður Ágústsdóttir hefur búið í Grindavík öll sín 36 ár en hún og fjölskyldan þurftu að yfirgefa bæinn fyrir tveimur vikum. Spurð að því hvort hún vilji enn þá flytja aftur í heimabæinn eftir atburðarrás síðustu vikna svarar hún: „Já, ekki spurning.“

Í dag héldu Valgerður og Steinþór, eiginmaður hennar, heim til sín til þess að sækja föggur sínar. Hjónin telja sig afar heppin að hafa fengið þak yfir höfuðið í Keflavík, heima hjá ömmu Steinþórs.

Valgerður segist vona að sem flestir Grindvíkingar flytji aftur í heimabæinn þegar óvissuástandið líður undir lok. Hún segir langflesta fjölskyldumeðlimi sína búa í Grindavík.

„Mér finnst erfitt að heyra þegar fólk segist ekki ætla að koma aftur. Því það er það sem við þráum mest – samfélagið hérna,“ segir Valgerður í samtali við mbl.is.

Sótti brúðarkjólinn og hrærivélina

„Við snúumst bara í hringi. Í fyrradag ætluðum við að taka rúmið okkar, svo var ég eiginlega bara komin til að sækja brúðarkjólinn minn. Ég ætla að bjarga honum,“ segir Valgerður, sem skildi síðan rúmið eftir heima í Grindavík. „En við ætlum, held ég, ekki að taka neina stóra hluti.“

Einnig ætlaði hún sér að sækja snjóbuxur handa börnum sínum, en hjónin eiga þrjú börn – tvo stráka og eina stelpu.

„Ég er reyndar líka að sækja hrærivélina,“ bætir hún við.

Húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga

Ríkisstjórnin kynnti húsnæðisstuðning við Grindvíkinga í dag. Til að mæta hús­næðisþörf­inni verða rúmlega 200 íbúðir keyptar. Valgerður kvaðst aftur á móti ekki hafa kynnt sér aðgerðir ríkisstjórnarinnar þegar mbl.is náði tali af henni. 

„Það hljómar alla vega vel að það er verið að finna einhverjar lausnir. Því eins og maður veit þá eru margir á vergangi,“ segir Valgerður. „Ég finn náttúrulega mjög mikið til með því fólki.“

Hún vonar samt sem áður að það verði ekki til þess að fólk hætti við að flytja aftur til Grindavíkur ef ástandið batnar. „En ég geri mér náttúrulega algjörlega grein fyrir því að það þarf að gera eitthvað fyrir fólk núna, því við erum líklegast ekkert að koma hingað næstu mánuðina,“ bætir hún við.

Hvernig finnst þér viðbragð stjórnvalda hafa verið?

„Mér finnst þau hafa verið ágæt. Mér finnst þetta gott, sérstaklega hvað varðar frystingu lánanna. Mér finnst það skipta miklu máli að vextirnir komi ekki ofan á þau. En ég skil að þetta er mjög flókið og eitthvað nýtt fyrir okkur. Ég veit að mörgum finnst stjórnvöld kannski vera búin að vera svolítið sein til með svör, en ég hef skilning á því að þetta sé flókið verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert