Hljóðið í Grindvíkingum sem þurftu að yfirgefa bæinn sinn í skyndi vegna jarðhræringa er misjafnt, núna tveimur vikum síðar, að sögn Fannars Jónassonar bæjarstjóra.
„Það eru allar útgáfur af því. Sumir urðu fyrir vonbrigðum og miklu áfalli að koma heim til sín þar sem skemmdirnar voru mestar. Við vitum að það er einhver hluti bæjarins sem hefur farið nokkuð illa út úr þessu og sum hús verða ekki íbúðarhæf en önnur má lagfæra,” segir Fannar, sem ræddi við blaðamann að loknum upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum.
Hann nefnir að stærsti hópurinn hafi komið að húsunum nánast alveg eins og hann skildi við þau. Litlar skemmdir hafi orðið og munir innanhúss ekki hreyfst úr stað. Þetta sé þó mjög misjafnt eftir hverfum.
„Það er bærilegt hljóð í flestum miðað við aðstæður eftir að hafa komist heim og það er mikill léttir, segja margir, að koma inn í bæinn sinn og sjá hann eins og þeir næstum því yfirgáfu hann, ef þeir horfa ekki til þeirra skemmda sem eru bæði á eigin mannvirkjum og gatnakerfi og lögnum og slíku,” segir Fannar.
Spurður kveðst hann ekki hafa tölur um hversu mörg hús eru mjög illa farin og hver mörg þarf að gera minna við. Starfsmenn Náttúruhamfaratrygginga Íslands hafi farið um svæðið í viðvist íbúa en ekki hafi allir treyst sér í slíka úttekt. Vinnan sé í gangi.
Fannar segir erfitt að meta tjónið vegna þess að jarðhræringarnar geta haldið áfram og skemmdir orðið sýnilegri í kjölfarið. Því vilja menn ekki flýta sér um of við að meta aðstæður hvað varðar fjárbætur.
Hann bætir við að mikill hugur sé í flestum Grindvíkingum og fyrirtækjum um endurreisn bæjarins. Stór hópur Grindvíkinga sem eigi jafnvel ættir að rekja þar mörg hundruð ár aftur í tímann eigi þá heitustu ósk að komast þangað aftur.
„Við verðum hins vegar að vera raunsæ og fylgjast með framhaldinu og hvernig gengur að koma veitukerfum í samt lag. Svo er svæðið vaktað og við þurfum að fylgjast með framvindu mála. Það er of fljótt að geta sér til um hvað er hægt að gera í vetur. Það er harðasti vetrarkaflinn framundan,” greinir hann frá og bendir á að ekki sé ástæða til að fara í meiriháttar framkvæmdir á veitukerfum næstu mánuðina. Bæði vegna frosts í jörðu, auk þess sem öfugur vatnshalli hafi mögulega orðið á veitukerfunum, jafnvel þótt ekki sé brot í þeim.
„Það þarf að gæta þess að fráveita bæjarins virki, það er mesta óvissuatriðið þar. Það tekur þó nokkurn tíma að mynda þetta allt saman og miklu lengri tíma að lagfæra það sem kann að hafa farið verulega úr skorðum.”
Fannar telur mögulegt að hægt verður að flytja aftur í einhvern hluta bæjarins og fyrirtæki snúið aftur eftir vikur heldur en mánuði. Engu að síður segir hann mikilvægt að fólk tryggi sér húsnæði í að minnsta kosti hálft ár til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig.