Andlát: Halla Haraldsdóttir

Halla Haraldsdóttir.
Halla Haraldsdóttir. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson

Halla Haraldsdóttir gler- og myndlistarkona, betur kunn sem Halla Har, lést á Landspítalanum í Fossvogi 23. nóvember, 89 ára að aldri.

Halla fæddist á Siglufirði 1. nóvember 1934 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Guðrún Brynjólfsdóttir og Haraldur Sölvason.

Halla Har átti að baki langan feril sem farsæl gler- og myndlistarkona. Hún sinnti list sinni af miklum eldmóði og elju. Hún stundaði nám við Handíða- og myndlistarskóla Íslands og var listamaðurinn Erró hennar aðalkennari þar. Halla bjó um tíma í Danmörku þar sem hún vann með hinum þekkta danska listamanni S. Edsberg.

Undir handleiðslu Errós þróaði Halla fyrsta bréf-mósaíkverk sitt þar sem hún málaði pappír í mismunandi litum og reif niður í litla búta. Þessi tækni í listsköpun er á margan hátt einstök og varð hennar vörumerki.

Halla braut blað í íslenskri listasögu kvenna þegar hún hélt einkasýningu á Kjarvalsstöðum 1975, hún var fyrsta kona landsins til að halda sjálfstæða sýningu þar. Halla var fyrsta konan sem hélt einkasýningu á Suðurnesjum og var kosin bæjarlistamaður Keflavíkur, fyrst kvenna.

Árið 1978 urðu stór stór tímamót á listferli Höllu þegar hún þáði boð um samstarf með hinu þekkta gler- og mósaíkverkstæði Dr. H. Oidtmann í Þýskalandi. Samstarf þeirra varði í áratugi og það er í glerlistinni sem Halla markaði spor sín erlendis. Hún var valin úr hópi 25 þekktra listamanna til að gera steinda glugga í Marien-kapelluna í Þýskalandi.

Listsköpun Höllu var mjög fjölbreytileg. Hún var afkastamikilll listamaður og má sjá verk eftir hana í fjölmörgum kirkjum landsins. Halla var jafnvíg á gler- og myndlist og má finna verk hennar bæði á opinberum stöðum sem og einkaheimilum.

Halla giftist Hjálmari Stefánssyni, útibússtjóra Landsbankans í Sandgerði, og eignuðust þau þrjá syni; Harald Gunnar hljómlistarmann, Þórarin flugstjóra og Stefán lækni, sem nú er látinn. Afkomendur Höllu og Hjálmars eru 16 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert