Í dag færði Brautin - bindindisfélag ökumanna, Slysavarnafélaginu Landsbjörg að gjöf veltibílinn sem Brautin hefur rekið frá árinu 1995.
Í tilkynningu kemur fram að frá þeim tíma hafa yfir 400 þúsund upplifað bílveltu í bílnum.
Núverandi veltibíll er sá sjötti í röðinni, en veltibíllinn hefur verið endurnýjaður á um fimm ára fresti með stuðningi Heklu og Volkswagen sem hafa reglulega gefið nýjan Volkswagen Golf til verkefnisins.
Síðast var bíllinn endurnýjaður árið 2020, og hafa nærri 45 þúsund manns farið veltu í honum.
„Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggst nota þessa góðu gjöf til að halda áfram því góða starfi sem Brautin hefur staðið fyrir öll þessi ár en veltibíllinn fellur afar vel að slysavarna verkefnum sem félagið nú þegar sinnir, og veitir okkur enn frekari tækifæri til að útvíkka slysavarna hluta starfsins.
Um allt land eru bæði björgunarsveitir, en ekki síst slysavarnadeildir sem í framtíðinni munu nýta bílinn til slysavarna, en umferðin er einn mesti slysavaldur í samfélaginu og af geta hlotist mjög alvarleg líkamleg meiðsl,“ segir í tilkynningunni.