Gullöld tækifæranna

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, er fyrsti viðmælandinn af 110 í sérstakri hlaðvarps-hringferð Morgunblaðsins, sem farin er í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins. Hún stendur yfir í heilt ár, en þar verður dregin upp mynd af samfellu þjóðlífsins um land allt; úr fortíð, um samtíð, til framtíðar. Upptaka hlaðvarpsins fór fram í veitingasal Hótel Holts, sem Ólafi Ragnari þótti greinilega ekki lakara.

Einstakt í íslenskri fjölmiðlasögu

„Mig langar að óska Morgunblaðinu til hamingju með þennan háa aldur. Það er auðvitað einstakt í íslenskri fjölmiðlasögu og þó víðar væri leitað, að dagblað nái þessum aldri. Sérstaklega í umróti fjölmiðlanna á síðustu áratugum, að þá skuli Morgunblaðið eitt blaða hafa lifað þetta af.“

Ólafur Ragnar mætti til leiks á Hótel Holti en þar …
Ólafur Ragnar mætti til leiks á Hótel Holti en þar hefur hann komið ótal sinnum á síðustu 50 árum eða allt frá því að þátttaka hans í íslensku þjóðlífi hófst fyrir alvöru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar þar er komið sögu lifnar yfir fræðimanninum Ólafi Ragnari, sem rifjar upp hvernig blaðið hafi orðið til þegar sjálfstæðisstjórnmál 19. aldar hafi þokað fyrir stéttastjórnmálum 20. aldar.

„Það koma þarna nokkur ár, á öðrum áratug 20. aldar, þar sem þessi þáttaskil verða, og það er á þeim sem Morgunblaðið er stofnað í anda blaðamennsku, fréttamennsku og frjálslyndis, í þeim tilgangi að verða fyrst og fremst blað en ekki málgagn, eins og tíðkaðist á dögum sjálfstæðisstjórnmálanna og átti eftir að verða aftur á tímum stéttastjórnmála.“

Ísland sem vin í eyðimörkinni

„Ég tel að við séum búin að sanna það í reynd, að í hinni nýju heimsmynd 21. aldar eigi Ísland gríðarlega möguleika. Í augum veraldarinnar er Ísland einstakur griðastaður. Að hér sé lítið land, sem ekki ógnar neinum, býr við hreint loft, hreint vatn og hreina orku, lýðræði, mannréttindi, fallega náttúru og opinn aðgang. Það hafa margir sagt við mig á síðustu þingum Arctic Circle í Hörpu, að þetta sé eini alþjóðlegi vettvangurinn þar sem ekki eru öryggishlið, menn þurfi ekki að láta gegnumlýsa sig og enginn vopnaður vörður. Allir frjálsir, jafnir og öruggir. Það eru ekki margir slíkir staðir í veröldinni, Ísland er vin.“

Ólafur Ragnar Grímsson ávarpar Arctic Circle í Hörpu.
Ólafur Ragnar Grímsson ávarpar Arctic Circle í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir gaman að hafa upplifað allar þessar breytingar á högum lands og þjóðar. „Jú, það veitir innri ánægju og gleði að sjá það og þann árangur sem Íslendingar hafa náð. Mér hefur fundist á síðari árum, kannski eftir hrunið, að það megi varla minnast á það að Íslendingar séu góðir í einhverju eða hæla þjóðinni. Það er jafnhættulegt að vilja ekki tala um það sem vel er gert eins og að forðast gagnrýni og horfast í augu við það sem miður hefur farið. Staðreyndin er sú að við búum í landi sem er í fremstu röð í veröldinni á ótal sviðum. Það er ástæðan fyrir því að svo margt ungt fólk kemur hingað frá Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu og lítur á Ísland nánast sem útópíu. Og að lítil þjóð geti náð þessum árangri.“

Viðtalið við Ólaf Ragnar má nálgast í heild sinni í spilaranum hér að ofan en einnig á Spotify og öðrum helstu hlaðvarpsveitum. Fjallað er um viðtalið í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins, á blaðsíðu 8.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert