Íbúum Grindavíkur er heimilt að sækja verðmæti og huga að eignum sínum frá kl 9 til 16 í dag. Breytingar sem tóku gildi í dag felast í því að nú er hægt að fá heimild fyrir flutningabíla til að flytja eigur.
Íbúar sem vilja fara á stórum bílum inn í bæinn þurfa að sækja um leyfi inn á island.is og mun aðgerðastjórn síðan úthluta þeim sem fá leyfið ákveðnum tíma. Raðað verður eftir hverfum og götum.
Áfram er fólki leyft að nota bíla sem þurfa einungis almenn ökuréttindi og kerrur.
Þeir sem þurfa aðstoð til að nálgast og flytja eigur sínar geta sent inn beiðni eða í gegnum þjónustugáttina á island.is í byrjun næstu viku. Í boði verður að fá bæði flutningabíla og mannskap til flutninga.
Tilhögun dagsins í dag má sjá nánar í tilkynningu almannavarna.