„Hvað ættum við að græða á því?“

„Það hefur legið fyrir lengi, nánast frá upphafi þátttöku minnar í stjórnmálum, að ég hef ávallt komist að þeirri niðurstöðu að það þjónaði ekki hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið.“

Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, í viðtali sem markar upphaf árslangrar hringferðar Morgunblaðsins í tilefni af 110 ára útgáfusögu blaðsins. Ólafur er fyrsti gestur af fjölmörgum sem blaðamenn munu taka hús á, vítt og breitt um landið. Blaðamenn Morgunblaðsins settust niður með honum á hinu fornfræga Hótel Holti við Bergstaðastræti og ræddu saman í drjúga stund.

Kalt hagsmunamat

Segir Ólafur þessa afstöðu sína til ESB markast af köldu hagsmunamati. „Það er athyglisvert, ef þú horfir til okkar nágranna, Grænlendinga, Breta, Færeyinga, Norðmanna, ekkert af þessum ríkjum er í Evrópusambandinu, ekkert.“ Segir Ólafur Ragnar að þessi staða sé uppi vegna hagsmunamats sömu þjóða.

​​​​​​„Ef við tökum gjaldmiðilsmálin sem menn eru oft að tala um. Krónan er bara reiknistærð. Það var mjög hentugt fyrir Íslendinga, til að ná tökum á efnahagslífinu hér áður fyrr, að geta fellt gengið. Ef við hefðum verið bundin af einhverjum öðrum gjaldmiðli í gegnum þessar efnahagskrísur sem voru fyrir fjörutíu, fimmtíu sextíu árum, þá hefði þjóðin sjálfsagt orðið gjaldþrota.“

Segir Ólafur merkilegt þegar horft er til Norðurlanda að það séu aðeins Finnar sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að það þjónaði hagsmunum þeirra að taka upp evru.

Ólafur Ragnar settist niður með blaðamönnum Morgunblaðsins á Hótel Holti …
Ólafur Ragnar settist niður með blaðamönnum Morgunblaðsins á Hótel Holti og ræddi margt úr fortíð en einnig framtíð Íslands og íslensku þjóðarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert