Breski rithöfundurinn Neil Gaiman kann sannarlega þá list að fara með lesendur í huganum á staði sem liggja á mörkum hins raunverulega, þangað sem fantasían tekur öll völd og allt er leyfilegt. Hann er í dag talinn fremsti fantasíurithöfundur heimsins. Bækur hans hafa selst í bílförmum, hann hefur hlotið ótal viðurkenningar og margar af sögum hans hafa ratað á hvíta tjaldið eða sjónvarpsskjáinn.
Gaiman var staddur hér í síðustu viku á bókmenntahátíðinni Iceland Noir og kallaði glæpasagnarithöfundurinn Ragnar Jónasson hann rokkstjörnu í bókmenntaheiminum. Gaiman féllst á að hitta blaðamann sem komst að því að þessi „rokkstjarna“ bókmenntanna er hógvær með eindæmum.
Svo hógvær er Gaiman að hann viðurkennir að oft skilji hann ekkert í vinsældunum og finnist hann hreinlega loddari. En við komum að því síðar. Að breskum sið fáum við okkur te og ræðum heim Neils Gaimans.
Myndasögubækurnar um The Sandman eru mörgum kunnar, en Gaiman skrifaði þær á árunum 1989-1996. Í fyrra kom út sjónvarpsserían The Sandman á Netflix og von er á fleiri þáttum. Þar segir af Morpheus, konungi draumanna, og vegferð hans til að endurheimta glataða krafta sína.
Hvernig hófst ævintýrið í kringum The Sandman?
„Mig langaði virkilega að skrifa myndasögur og fólk frá DC Comics var á Bretlandi að leita að góðum pennum. Ég var þá þegar að vinna að myndasögu fyrir þá sem hét Black Orchid með teiknaranum Dave McKean og var í miðju kafi að skrifa seríu tvö af þeirri sögu þegar útgefandinn hringdi með nýja hugmynd. Hún sagðist áhyggjufull; við værum tveir náungar sem enginn þekkti að skrifa um karakter sem enginn myndi muna eftir; kvenhetju sem seldi ekki nóg.
Hún bauð mér að gera mánaðarlega myndasögu og úr varð að ég gerði myndasögu um The Sandman, en nafnið Sandman hafði þá verið til hjá myndasögufyrirtækinu síðan 1938. Ég ákvað að búa til alveg nýjan karakter og heilan nýjan heim. Og það gerði ég og fann að ég var þá að skrifa myndasögu alveg eins og ég myndi sjálfur vilja lesa. Og fleiri höfðu sama smekk,“ segir Gaiman.
„Þegar ég hafði lokið skrifunum hafði selst meira af myndasögunum um The Sandman en Superman og Batman,“ segir hann.
„Næstu tvo áratugina var fólk að skrifa handrit að kvikmyndum og seríum eftir sögunni og mér voru síðan send handritin. Þau voru öll hræðileg. Allt sem þessi handrit áttu sameiginlegt var að ég átti enga hlutdeild í þeim.“
Það átti eftir að skipta sköpun að Gaiman skrifaði handrit að sjónvarpsseríunni Good Omens sem er byggð á bók hans og Terrys Pratchetts frá 1990. Serían var sýnd á Netflix fyrst árið 2019 en sería tvö kom út í sumar.
„Eftir að ég gerði Good Omens áttaði fólk sig á því að ég gæti vel verið hluti af þeirri sköpun að búa til The Sandman fyrir sjónvarp. Fram að því fannst fólki ég eiga að halda mig til hlés; það væri bara vandræðalegt að hafa mig með. En allt í einu var þessu snúið við og ég fékk að vinna með David Goyer og Allan Heinberg við að búa til eitthvað mjög gott.“
Er ekkert skrítið og stórfenglegt að sjá eitthvað sem þú hefur skrifað lifna við á skjánum?
„Það er alltaf skrítið! Og alltaf skemmtilegt. Hvað The Sandman varðar var það sérstaklega skrítið þar sem myndasagan er til. Það er allt öðruvísi þegar til er myndefni en ekki einungis texti.“
Hefur þig aldrei langað að leika lítið hlutverk?
„Nei,“ svarar Gaiman ákveðinn, en bendir á að hann hafi lesið The Sandman inn á hljóðbók og það geti hann vel. En leiklistin hefur aldrei blundað í honum.
„Ég held að það sé vegna þess að það besta við að vera rithöfundur er að þar fær maður að leika alla. Í huganum fæ ég að vera allir.“
Hvernig tilfinning er það að vera talinn einn fremsti fantasíurithöfundur heims? Líður þér eins og þú sért frægur?
„Að mestu er ég mjög góður í að gleyma því. Á hverjum degi sex mínútur yfir átta þarf ég að koma syni mínum í skólabílinn og passa að gleyma ekki nestinu hans. Flesta daga er ég að huga að börnum mínum eða úti að labba með hundinn. Ég er ekkert mikið að gera hluti sem tengjast frægðinni. Svo kem ég hingað og er í raun steinhissa, sem er ef til vill furðulegt þar sem þetta hefur verið svona í þrjátíu ár.
Ég gekk hér inn í herbergi í morgun sem var stútfullt upp í rjáfur og ég hugsaði: „Þetta fólk er allt komið að hitta þessa tvær indælu konur sem eru með mér.“ En svo áttaði ég mig á því þegar fólk fór að spyrja spurninga að þau voru öll komin vegna mín. Sum þeirra sögðust hafa flogið alla leið til Íslands til að fá að hitta mig. Ég verð eiginlega hálfvandræðalegur,“ segir hann.
„Ég var eitt sinn haldinn loddaraheilkenni á háu stigi. Mér leið alveg eins og loddara. Svo einn dag fyrir þónokkrum árum var ég á viðburði þar sem staddur var annar maður sem einnig hét Neil. Við spjölluðum um hríð en þetta var á þeim árum að þegar maður gúglaði nafnið Neil opnaðist strax vefsíðan mín. Við vorum að grínast með þetta; hvor okkar væri Neil númer eitt og hvor Neil númer tvö. Hann sagði að ég væri Neil númer eitt en ég benti honum á að það ætti að vera hann.
Hann horfði þá í kringum sig á allt fólkið sem var þarna statt og sagði: „Sjáðu allt þetta fólk hér; hér eru vísindamenn, frægir rithöfundar og fólk sem virkilega hefur gert merkilega hluti. Ég horfi á þetta fólk og hugsa: hvað í fjandanum er ég að gera hér?“ Ég svaraði honum: „Þú varst fyrsti maðurinn á tunglinu, það hlýtur að vera eitthvað.“ Og þá skaut upp í huga mér: fyrst Neil Armstrong líður eins og loddara, þá líður öllum þannig! Allur heimurinn er fullur af fólki sem hugsar eins. Og þá leið mér betur. Kannski er ég loddari og þá er það allt í lagi.“
Ítarlegt viðtal er við Gaiman í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.