Öllum sleppt úr haldi en býst við fleiri handtökum

Allir fjórir mennirnir sem voru handteknir vegna hnífaárásar í Grafarholti …
Allir fjórir mennirnir sem voru handteknir vegna hnífaárásar í Grafarholti í gærmorgun hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öllum fjórum mönnunum sem voru handteknir vegna hnífaárásar í Grafarholti í gærmorgun hefur verið sleppt úr haldi. Búast má við fleiri handtökum í tengslum við málið.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Þannig er leitt í ljós með aðild þessa fólks að það er ekki ástæða til að halda þeim lengur,“ segir Grímur.

Fórnarlambið ekki það sama og í skotárásinni

Spurður að því hvort að það megi túlka það sem svo að lögreglan telji mennina ekki ábyrga fyrir árásinni kveðst hann ekki vilja fara nánar út í það.

„Aðildin er þannig að það er ekki ástæða til að halda þeim lengur. Ef við hefðum ætlað að halda þeim lengur hefðum við þurft að fara með það fyrir dómara og það var ekki ástæða til þess,“ segir Grímur.

Grímur segir það ekki rétt að fórnarlamb hnífaárásarinnar sé hinn sami og varð fyrir skotárás í Úlfsárdal í síðasta mánuði. Frá því hafði verið greint að lögreglan væri að rannsaka möguleg tengsl þarna á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert