Á löngum pólitískum ferli Ólafs Ragnars bar margt til tíðinda. Hann tók m.a. virkan þátt í harkalegri kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar 1979. Þar boðaði Sjálfstæðisflokkurinn svokallaða leiftursókn gegn verðbólgu sem þjakaði hagkerfið mjög á þeim tíma.
Þessa atburði rifjar Ólafur Ragnar upp í nýju og ítarlegu hlaðvarpsviðtali við blaðamenn Morgunblaðsins. Það var tekið upp í tilefni þess að Morgunblaðið efnir nú til hringferðar um Ísland nú þegar blaðið fagnar 110 ára útgáfusögu. Það kom fyrst út 2. nóvember 1913.
Slagorð flokksins var birt í Morgunblaðinu í byrjun nóvember en snerist mjög hratt í höndunum á forsvarsmönnum hans. Þar réðu snör viðbrögð Ólafs Ragnars miklu.
„Þetta var í kosningabaráttunni í desember 1979 þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar hafði hröklast frá. ég man alveg eftir þessu að við mættum á fund í kosningastjórninni þarna snemma um morguninn og sáum Morgunblaðið. Og ég sagði bara nú fer ég niður á Lækjartorg. Náið í 50 eintök af Morgunblaðinu. Og ég fór niður á Lækjartorg og dreifði Morgunblaðinu og við snerum þessu á einum sólarhring. Yfir í að verða eitt versta slagorð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til,“ segir Ólafur Ragnar þegar hann rifjar málið upp.
Á síðum Þjóðviljans var snúið út úr slagorðinu og sagt að Sjálfstæðisflokkurinn væri í raun að boða leiftursókn gegn lífskjörum í landinu.
Hlusta má á viðtalið við Ólaf Ragnar í heild sinni hér: