Rannsókn er enn í fullum gangi í máli tveggja fanga sem lentu í átökum í fangelsinu á Litla-Hrauni með þeim afleiðingum að einn var fluttur á slysadeild.
Þetta staðfestir Jón Gunnar Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Hann segist litlu geta bætt við en þó að búið sé að taka skýrslu af báðum mönnum.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is. að lögreglan skoði núna hvort að skotárásin í Úlfsárdal í síðasta mánuði, hnífaárásin í Grafarholti sem og líkamsárásin á Litla-Hrauni, sem áttu sér bæði stað í vikunni, tengist.
Grímur tók það fram fyrr í dag við mbl.is að fórnarlamb hnífaárásarinnar sé samt ekki hinn sami og varð fyrir skotárás í Úlfsárdal í síðasta mánuði.