Bókamessan í Hörpu fór vel af stað í dag er Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands, setti hana formlega. Allt stefnir í Íslandsmet í jólabókaupplestri en 90 höfundar munu lesa úr verkum sínum í dag og á morgun.
„Þetta byrjaði mjög kröftulega með skólahljómsveit vesturbæjar- og miðbæjar og Hlíða og svo með forsetanum. En svo er þetta bara búið að vera frábært. Endalausir upplestrar og fullt af fólki,“ segir Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefanda, í samtali við mbl.is.
Það er félag íslenskra bókaútgefenda sem stendur fyrir hátíðinni sem verður að til klukkan 17 í dag og svo aftur á morgun á milli klukkan 11-17.
„Upplesturinn er á Norðurbryggju þannig þú ert að horfa á höfundinn lesa upp og á bak við hann er innsiglingin inn í Reykjavíkurhöfn. Og það er ótrúlega rómantísk að horfa á því svo koma bátarnir hægt siglandi inn á bak við Einar Kárason. Það er eitthvað svo viðeigandi,“ segir Bryndís.
Það er mikil og þétt dagskrá í Hörpu í kringum þennan viðburð og ekki er bara lesið. Hrefna Sætran er að gera eplakleinuhringi og Helen Kova er með örnámskeið um hvernig á að gera origami. Ásamt því er margt annað um að vera eins og til dæmis prjónasmiðja, klippimyndasmiðja, jólakúluhekl og fleira.
„Það er endalaust smakk, nammi á öllum stöndum og kókómjólk gefins fyrir öll börn,“ segir Bryndís og bætir við að bókahöfundarnir eru viðstaddir og árita bækur, afgreiða fólk og spjalla við lesendur.