Langmestur hluti kvikugangsins við Svartsengi er storknaður. Líkur á eldgosi fara dvínandi og landris við Svartsengi hefur hægt á sér. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Magnús Tumi útskýrir að þegar kvika leiti sér leiðar upp í jarðskorpuna sé hún þúsund gráðum heitari en bergið í kring um hana, „svolítið eins og vatn sem er sett inni í fimmtíu gráðu frost“. Storknar hún því afar hratt á jöðrum kvikugangsins.
Hann segir að kvikugangurinn sé um tveir metrar að þykkt á flestum stöðum, en ýmist breiðari annars staðar. Nú þegar tvær vikur eru liðnar frá því að kvikugangurinn myndaðist séu 90% kvikunnar í ganginum storknuð.
„Þetta útilokar ekki að það sé eitthvað aðeins eftir og að það sé enn þá opin leið sem kvikan kæmist upp um, ef það kæmi eitthvað meira inn,“ segir hann. „En líkur á gosi eru orðnar töluvert minni en þær voru, meðal annars út af þessu.“
Líkur á gosi fara þverrandi annars vegar vegna þess að dregið hefur úr jarðskjálftavirkni á svæðinu og hins vegar vegna þess að gliðnun jarðflekanna er orðin lítil, að sögn jarðeðlisfræðingsins.
„Það er ekki hægt að útiloka að það verði gos. Líkurnar eru mestar um miðbikið á ganginum, sem er austan við Sýlingarfell,“ segir hann.
„Þetta á náttúrulega bara við um núverandi aðstæður. Svo getur farið af stað nýtt ferli á næstunni,“ bætir hann við og bendir á að enn sé innflæði af kviku í geymsluhólfi á 5-6 km dýpi undir Svartsengi. Þar sé þó aftur á móti engin spenna og mjög lítil jarðskjálftavirkni.
Áður var talið að gos gæti orðið í eða við Grindavík, en sprunga myndaðist þar eftir stóra jarðskjálfta aðfaranótt 10. nóvember.
Magnús Tumi segir að það séu ekki lengur vísbendingar um að gos muni hefjast í sprungunni.
„Það eru ekki merki um að það sé að safnast fyrir nein kvika í sjálfri Grindavík,“ segir hann.
Hann segir að það hafi hægt aðeins á landrisi við Svartsengi og hann telur ósennilegt að landrisið nái sömu hæð fyrir mánaðamót og það hafði náð þann 10. nóvember.
„Það eru nokkrar sviðsmyndir. Ein er sú að landris haldi áfram undir Svartsengi á verulegum hraða og eftir fáar vikur verði komið svipað ástand og var fyrir þessa atburðarás,“ segir hann og heldur áfram:
„Hitt er hins vegar alveg ljóst, það getur ekki byggst upp sami þrýstingur og var fyrir. Það er þarna veikleiki. Nú er veikleiki þar sem gangurinn er, og þó að hann sé að miklu leyti storknaður þá er enn að öllum líkindum tenging [þar sem kvikan streymir upp].“
Magnús segir það ólíklegt að mikill þrýstingur byggist aftur upp undir Svartsengi. „Þakið er búið að brotna og það tekur marga mánuði eða ár áður en það nær fyrri styrkleika. Þó að það sé storknað, þá er það veikt.“
Jarðeðlisfræðingurinn segir að það sé engin trygging fyrir því að varnargarðar bjargi öllu en það sé ljóst að þeir geti varið fjölda húsa og mikið af verðmætum, með meiru. Það gæti þó vissulega þýtt að það þurfi að bjarga einu svæði á kostnað hins.
„Það er ekkert einfalt að eiga við náttúruöflin,“ segir Magnús Tumi sem bendir einnig á að það sé ákveðin áhætta fólgin í því að nýta jarðhitann hér á landi, þó hann sé landsmönnum til mikilla hagsbóta.
„Við búum á Íslandi. Þetta er land þar sem eldgos verða. Það eru ákveðnir innviðir í hættu þegar gýs. Og þegar við horfum á jarðhitaorkuverin okkar, þá er verið að nýta orkuna á jarðhitasvæðum sem eru í virkum eldfjöllum. Því þarna er varminn,“ segir hann.
Magnús segir að það gæti skipt miklu máli að tengja heitt vatn frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja. „Ef Svartsengi dytti út þá gæti lögn frá Reykjavíkursvæðinu haldið Suðurnesjum, Keflavíkurflugvelli, Keflavík og þessum svæðum gangandi.“
„Bær eins og Reykjanesær byggir á því að fá orku og hita frá orkuveri sem myndi eyðileggjast eða skemmast í eldgosi. Svona tenging myndi bjarga öllu,“ segir hann að lokum.