Í kjölfar bankahrunsins gripu íslensk stjórnvöld ekki til varna fyrir landið á alþjóðlegum vettvangi. Ólafur Ragnar Grímsson taldi sig því nauðbeygðan til þess að taka það upp á sína arma. Sem hann og gerði og pakkaði meðal annars Jeremy Paxman saman í frægu viðtali á BBC.
Ólafur Ragnar fer yfir þessa atburði í ítarlegur viðtali sem markar upphafið að hringferð Morgunblaðsins um Ísland í tilefni þess að þann 2. nóvember síðastliðinn fagnaði blaðið 110 ára afmæli. Næsta árið munu blaðamenn Morgunblaðsins taka hús á fjölda Íslendinga vítt og breitt um landið. Fræðast um sögu þeirra og hvar þeir sjá tækifæri fyrir íslenskt samfélag til þess að vaxa og dafna.
Í viðtalinu er Ólafur Ragnar sérstaklega spurður út í frægt viðtal sem hann mætti í hjá hinum beinskeytta Jeremy Paxman sem um langan aldur hefur verið einn þekktasti sjónvarpsmaður BBC.
Þar ræddu þeir um Icesave-deiluna og eru margir á því að Ólafur Ragnar hafi haft betur í viðureign sinni. við Jeremy. Ólafur Ragnar skefur ekkert utan af því þegar hann er spurður hvort hann hafi ekki valtað yfir Paxman.
„Já, já, ég valtaði yfir hann.“
Ólafur Ragnar segir að það hafi reynst talsvert átak að taka að sér málsvörn Íslands á alþjóðavettvangi.
„Þetta var mikil þolraun því þetta voru sumir beittustu fréttamenn heimsins. En það sem var merkilegt, af því að Íslendingar hafa ekki alveg áttað sig á því, er að til dæmis Financial Times og Wall Street Journal studdu Íslendinga alltaf í þessari Icesave-deilu. Það var ekki vegna mín. Þeir höfðu bara framkvæmt sína eigin greiningu á þessu máli og komist að þeirri niðurstöðu að Bretar og Hollendingar hefðu rangt fyrir sér og Íslendingar höfðu rétt fyrir sér. Þannig að þegar þessari miklu herferð minni í gegnum hina alþjóðlegu fjölmiðla var að ljúka þá hafði taflið eiginlega snúist við þannig að menn voru orðnir svo vinsamlegir gagnvart Íslandi að það var stundum til vandræða í samtölunum. Því það er miklu betra að vera í samtali þar sem viðmælandinn er þér frekar andsnúinn heldur en þegar hann er sífellt að hæla þér.
Hlusta má á viðtalið við Ólaf Ragnar í heild sinni hér: