Frá miðnætti í dag hafa um 130 skjálftar mælst við kvikuganginn og voru allir undir 1 að stærð.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar en alls mældust tæplega 510 skjálftar í gær.
Sá stærsti mældist 2,6 að stærð rétt austan við Sýlingafell klukkan rúmlega hálf fjögur í gær.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði í viðtali við mbl.is í gærkvöldi að kvikugangurinn sé nú um tveir metrar að þykkt á flestum stöðum, en ýmist breiðari annars staðar. Nú þegar tvær vikur eru liðnar frá því að kvikugangurinn myndaðist er 90% kvikunnar í ganginum storknuð. Líkur á gosi fara þverrandi.