Á vaktinni í rúma hálfa öld

Hjónin Kristjana og Sigurður í Gull og silfur á Laugavegi …
Hjónin Kristjana og Sigurður í Gull og silfur á Laugavegi ætla nú að njóta lífsins en hyggjast ekki alveg hætta að vinna samt. ​ mbl.is/Ásdís

Ding dong, ding dong, heyrist reglulega á Laugavegi 52 þegar dyrnar opnast og viðskiptavinir reka nefið inn til að skoða skartgripina hjá Gulli og silfri; búð sem hefur átt heimilisfang á Laugavegi í hátt í 53 ár. En allt í heiminum er hverfult og nú munu hjónin Sigurður G. Steinþórsson og Kristjana Ólafsdóttir skella í lás þann 1. desember. Þau hyggjast þó ekki hætta að vinna alveg strax og ætla að nýta sér nútímatæknina til að selja handsmíðaðar vörur sínar á netinu. Fastir kúnnar þurfa því ekki að örvænta!

Hlakka til að fara í vinnuna

Gullsmiðurinn Sigurður býður blaðamanni til betri stofu, en innst inni í búðinni eru leðursófar og málverk á veggjum. Þar hafa að vonum margir viðskiptavinir setið í gegnum tíðina og skoðað trúlofunar- eða giftingarhringa og brosað hringinn. Sigurður segir að nú sé kominn tími til að minnka aðeins við sig vinnu, en hann viðurkennir að lítið hafi verið um frí síðustu hálfa öldina.

„Nú er kominn tími til að slaka aðeins á en ég hef alltaf gaman af þessu; annars væri ég löngu hættur,“ segir hann og segir Gull og silfur sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Kristjana sér um rekstur og afgreiðslu, en hún lærði sjálf gullsmíði á sínum tíma, og dóttirin Sólborg Sumarrós, kölluð Rósa, vinnur þar sem gullsmíðameistari. Sigurður stendur svo vaktina alla daga og hannar og smíðar.

„Ég er orðinn 76 ára og byrjaði 16 ára í þessu,“ segir Sigurður og hlær.

„Pabbi var gullsmiður og ég man eftir mér sem barni að þvælast á verkstæðinu hjá honum. Ég fór svo í myndlistarskóla en gullsmíðin er svo skapandi fag að í henni fékk ég svo mikla útrás,“ segir hann.

„Ég hlakka alltaf til að fara í vinnuna á morgnana og dreymir á nóttunni hvernig ég eigi að leysa vandamál næsta dags. Þegar staðan er þannig er þetta allt þess virði,“ segir hann og segist enn í dag vera mikið að smíða gripi.

„Við erum öll að smíða. Ég held að það séu engin fyrirtæki sem eru með eins mikið handsmíðað og við.“

Glaðir og þakklátir kúnnar

Kristjana kíkir inn í betri stofu og fær erfiða spurningu frá blaðamanni:

Hvernig er búið að vera hér síðustu hálfa öldina?

„Í heildina mjög gott. Þetta er fjölbreytt og skemmtileg vinna og það fylgir henni gleði. Fólk er að koma að kaupa af því að eitthvað skemmtilegt er í vændum. Fólk kaupir hér af ást og væntumþykju,“ segir hún.

Allt er handsmíðað hjá Sigurði í Gull og silfri.
Allt er handsmíðað hjá Sigurði í Gull og silfri. mbl.is/Árni Sæberg

„Í 99% tilvika fáum við hingað glaða og þakkláta kúnna,“ segir Kristjana.

„Við eigum ofsalega mikið af góðum og tryggum kúnnum og jafnvel núna erum við að sjá þriðju kynslóð kúnna. Hér er mjög persónuleg þjónusta,“ segir Sigurður.

„Nú ætlum við ekki að hafa búð í eiginlegri merkingu, heldur móttöku og netsölu. Við höldum áfram að sinna okkar kúnnum en þurfum ekki að vera í afgreiðslu frá tíu til sex,“ segir hann.

Nú fer ég kannski í golfið

Sigurður hefur smíðað fleira en skartgripi í gegnum tíðina og nefnir til að mynda verðlaunastyttur, veiðiflugur, lítinn flygil og lítið mótorhjól.

„Ég smíðaði pínulítið mótorhjól fyrir riddara götunnar, Bjögga Halldórs,“ segir Sigurður.

„Og Fúsi Halldórs fékk litla fiskiflugu með demöntum og Ingimar Eydal fékk flygilinn,“ bætir Kristjana við.

„Ég smíðaði gripinn fyrir Grímuna; sviðslistaverðlaunin. Maður hefur smíðað allan fjandann,“ segir Sigurður og viðurkennir að það verði skrítið að skella í lás eftir viku.

Sigurður segist alltaf hlakka til að mæta í vinnuna en …
Sigurður segist alltaf hlakka til að mæta í vinnuna en hyggst nú slaka aðeins á, enda búinn að vera í gullsmíðinni síðan hann var unglingur. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er búinn að standa vaktina núna í hátt í 53 ár, nánast upp á hvern einasta dag og varla tekið sumarfrí. Ef ég hef gert það er ég með móral,“ segir hann og brosir.

„Nú fer ég kannski í golfið. Ég er ekki byrjaður en ég á gott golfsett sem ég fékk í sjötugsafmælisgjöf. Þetta verður ofboðsleg breyting fyrir mig því ég hef aldrei gert neitt annað,“ segir Sigurður.

„Nú verður þetta allt öðruvísi og við verðum að sjá hvernig þetta þróast með netsölunni,“ segir Kristjana og segir þau ekkert vera að flýta sér að fara á eftirlaun.

„Við viljum alveg fá meiri tíma til að „vera til“ inni á milli,“ segir hún.

Ítarlegt viðtal er við hjónin í Gull og silfur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert