Hermann Nökkvi Gunnarsson
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, segir að að þeir glæpahópar sem eiga nú í erjum á Íslandi séu veik endurspeglun á því sem við sjáum á Norðurlöndum.
„Þetta er ákveðin veik endurspeglun á því sem við erum að sjá á Norðurlöndunum,“ segir Helgi í samtali við mbl.is og bætir við:
„Auðvitað óttast maður að þetta fari að taka á sig fastari mynd, það er að segja að þetta verði hreinlega gengi,“ segir Helgi.
Gengi sem hann á við eru gengi eins og í Bandaríkjunum eða Norðurlöndunum sem hafa ákveðið skipulag og eru búin að festa sig í sessi og haft starfsemi svo árum skiptir. Hann segir Ísland ekki enn vera komið þangað þó þróunin sé ekki góð hér á landi. Það sé augljóslega ekki gott þegar ungir karlmenn sem lifa á jaðrinum séu utan hins venjulega samfélags.
Eins og mbl.is hefur greint frá þá rannsakar lögreglan núna hvort að skotárásin í Úlfarsárdal í síðasta mánuði, hnífaárásin í Grafarholti sem og líkamsárásin á Litla-Hrauni, sem áttu sér bæði stað í vikunni, tengist.
Helgi telur að röð glæpa að undanförnu séu mögulega erjur hópa vegna ólöglegs athæfis, þá mögulega vegna fíkniefnaviðskipta.