Gildi og siðir glæpahópa í berhöggi við almenning

Helgi segir hópanna hafa sína eigin menningu og önnur gildi …
Helgi segir hópanna hafa sína eigin menningu og önnur gildi en tíðkist í almennu samfélagi. mbl.is

Helgi Gunn­laugs­son, pró­fess­or í af­brota­fræði við Há­skóla Íslands, telur að röð glæpa að undanförnu séu mögulega erjur hópa vegna ólöglegs athæfis, þá mögulega vegna fíkniefnaviðskipta. Hann segir glæpahópana hafa sína eigin menningu og önnur gildi en tíðkist í almennu samfélagi.

Eins og mbl.is hefur greint frá þá rannsakar lög­regl­an núna hvort að skotárás­in í Úlfars­ár­dal í síðasta mánuði, hnífa­árás­in í Grafar­holti sem og lík­ams­árás­in á Litla-Hrauni, sem áttu sér bæði stað í vik­unni, teng­ist.

„Þeir eru með svona ákveðna hugmyndafræði sem gengur út á það að ef þér er ögrað þá sé réttlætanlegt að bregðast hart við,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Ekki ljóst af hverju hóparnir takast á

Margir glæpir hafa átt sér stað sem virðast tengjast þessum erjum sem eru á milli hópana en ástæða þess er ekki ljós. Hann segir erfitt fyrir menn í hópnum að deila með lögreglu hvað liggi að baki deilunum, sem eiga sér greinilega langan aðdraganda.

„Ágreiningurinn er eitthvað sem þú ert ekki að deila með lögreglunni sem slíkt. Þetta getur verið tengt einhverju ólöglegu, fíkniefnum eða eitthvað slíkt, og þá er þetta eitthvað málefni sem þú getur í sjálfu sér ekki verið að deila eða tjá lögreglu frá því.“

Hann segir að innan svona hópa sé litið á það sem mikið veikleikamerki ef þú segir öðrum, eða lögreglu, frá starfsemi hópsins. Ef þú deilir upplýsingum með lögreglu þá sé þér vísað úr félagsskapnum.

„Þú segir engum neitt,“ segir Helgi og bætir við að hóparnir vilji útkljá deilur alfarið á eigin vegum.

Líður eins og samfélagið hafi alltaf verið á móti þeim

Hann útskýrir að hefðbundin gildi eins og að standa sig vel, fá góða vinnu og eignast fjölskyldu séu ekki gildi sem eru í hávegum höfð innan þessara hópa.

„Þetta snýst í raun allt á hvolf innan þessara hópa. Þeir sem ganga lengst gegn samfélaginu, dópa mest og klæðast þessu eða sýna karlmennskubrag eða einhvers konar styrkleika, þá er það svona hátt gengi á því innan þessara hópa,“ segir Helgi og bætir við:

„Ef þú ert búinn að fremja mjög alvarleg brot og ert jafnvel í fangelsi, eða framið marga glæpi og ekki enn búið að ná þér, þá er gengið þitt innan hópsins orðið miklu hærra því það er búið að snúa öllu gildakerfinu á haus,“ segir Helgi.

Afleiðingin af þessu er sú að drengirnir eru lokaðir inn í jaðarmenningarhópi með hugmyndafræði sem er í berhöggi við það sem tíðkast í hjá almenning.

„Þetta gerist oft innan þessara jaðarhópa. Það er oft vegna þess að þessum drengjum finnst þeir ekki skulda samfélaginu neitt. Þeim líður eins og allir hafi alltaf verið á móti sér, þess vegna allt frá grunnskóla. Þeir telja sig kannski ekki eiga raunverulega möguleika á að ná sér á strik aftur og finnst það kannski hallærislegt,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert