Grasreykingar í ráðhúskjallara valda óþægindum

Í kjallara ráðhússins í Reykjavík er bílakjallari. Þar hefur hópur …
Í kjallara ráðhússins í Reykjavík er bílakjallari. Þar hefur hópur manna safnast saman síðasta mánuðinn til að reykja kannabisefni. Þrátt fyrir kvartanir hefur borgin og Bílastæðasjóður lítið getað gert. mbl.is/Hallur Már

Hópur manna safnast saman í bílastæðahúsinu undir Ráðhúsinu og reykir kannabisefni í lengri tíma. Íbúi við Tjarnargötu sem hefur afnot af bílastæðahúsinu, segir um veruleg óþægindi að ræða fyrir notendur bílastæðahússins.

Hjá Bílastæðasjóði og útideild Reykjavíkurborgar kannast menn við málið, en erfitt hefur reynst að leysa það.

Börnin þurfi að anda þessu að sér á morgnana

Íbúinn, sem óskaði þess að njóta nafnleyndar, hefur mesta áhyggjur af börnunum sínum og segir farir sínar ekki sléttar: 

„Það eru einstaklingar þarna, sem sitja um bílastæðahúsið og reykja gras þar óáreittir og klukkutímum saman og mökkurinn sem kemur af þessu er gríðarlegur,“ segir hann. 

„Svo fer maður með börnin sín í leikskólann á morgnanna og þau þurfa að anda þessum viðbjóði að sér,“ bætir hann við, en hann segir mennina hafa vanið komur sínar í bílastæðahúsið fyrir um rúmum mánuði. 

Grasreykingar í bílastæðahúsinu undir ráðhúsinu gera íbúa við Tjarnargötu lífið …
Grasreykingar í bílastæðahúsinu undir ráðhúsinu gera íbúa við Tjarnargötu lífið leitt. Ljósmynd/Unsplash

Hvöttu hann til þess að hafa samband við fjölmiðla

Íbúinn kvartaði til Bílastæðasjóðs og reyndi starfsfólk Bílastæðasjóðs að bola mönnunum burt en þeir virðast ekki taka mark á þeim. 

Sjálfur segist íbúinn hafa reynt að ræða við mennina, en fengið sömu viðbrögð. 

Hann segist hafa rætt við starfsmenn Ráðhússins, sem þurfa að þrífa upp eftir mennina, en þeir hvöttu hann til þess að hafa samband við fjölmiðla því þeir segjast upplifa sig máttlausa gagnvart ástandinu. Íbúinn segist hafa jafnframt hafa verið í sambandi við lögregluna vegna málsins án árangurs.

Þekkja til fleiri svona mála

Albert Svanur Heimisson, deildarstjóri útideildar hjá Reykjavíkurborg, segist kannast við málið og að verið sé að leita lausna. 

Aðspurður hvort að hann þekki til fleiri svona mála í bílastæðahúsum Reykjavíkur segir hann svo vera. 

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að hann kannist ekki við þetta tiltekna mál, en að það megi vel vera að það hafi ratað inn á borð lögreglunnar.

Ásmundur telur mál af þessu tagi ekki vera mikið vandamál. „En við höfum dæmi um það að aðilar haldi sig til í bílastæðahúsum,“ segir hann og enn fremur að lögreglan bregðist að sjálfsögðu við þeim tilkynningum sem henni berast og sinnir þeim verkefnum hverju sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert