Hýsir stofnanir sem eru „milli húsa“

Upphaflega byggt fyrir starfsemi Trésmiðjunnar Víðis. Síðar eignaðist ríkið húsið …
Upphaflega byggt fyrir starfsemi Trésmiðjunnar Víðis. Síðar eignaðist ríkið húsið og lét innrétta skrifstofur. Þar var skatturinn lengi til húsa. mbl.is/sisi

Skatturinn flutti starfsemi sína í Katrínartún 6 í sumar. Við það losnaði skrifstofurými í stórhýsinu Laugavegi 166, Víðishúsinu, sem er í eigu íslenska ríkisins.

„Þetta er fyrirtaks skrifstofuhúsnæði og vel staðsett,“ segir Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna (FSRE). Hann segir að til standi að nýta húsið í samræmi við áherslur stjórnvalda um samnýtingu skrifstofuhúsnæðis og vinnurýma. Þar mun gefast tækifæri til að veita aðstöðu þeim ríkisstofnunum sem af einhverjum ástæðum eru á milli húsa. Á hverjum tíma séu einhverjar stofnanir að breyta um húsnæði af ýmsum ástæðum og þá geti verið heppilegt að hafa svona aðstöðu til að grípa í tímabundið.

„Á Laugavegi 166 mun einnig gefast tækifæri til að þróa sameiginlegan rekstur og aðstöðu, svokallaða Deiglu, sem til stendur að þróa á vegum ríkisins og getið er um í fjárlagafrumvarpi næsta árs,“ segir Karl Pétur.

Skilgreiningin á Deiglu er húsnæði þar sem fleiri en ein stofnun starfa saman. Deila funda- og félagsrýmum og ýmissi annarri aðstöðu. Deiglur eiga að spara ríkinu umtalsverðan kostnað í framtíðinni.

Dæmi um Deiglu er sambýli FSRE og Ríkiskaupa í Borgartúni 26, en báðar stofnanirnar fluttu í húsið í fyrrahaust. Þetta var raunar fyrsta Deiglan en fleiri eri áformaðar.

Laugavegur 166, áður nefnt Víðishúsið, var byggður árið 1952. Þar var Trésmiðjan Víðir til húsa, bæði verkstæði og verslun. Víðir fjöldaframleiddi húsgögn og var stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Eigandi og forstjóri var Guðmundur Guðmundsson. Víðir hætti starfsemi árið 1983 og nokkru síðar eignaðist ríkið húsið.

Laugavegur 166 er fimm hæða hús, 5.845 fermetrar að stærð með bílakjallara, sem byggður var 2003. Fasteignamat hússins er 1.757 milljónir króna.

Eignasafn ríkisins telur mikinn fjölda fasteigna og því er jafnan einhver hreyfing á notendahópnum, segir Karl Pétur Jónsson aðspurður. Heilt yfir er nýting eignanna mikil og ekki mikið olnbogarými til að breyta til. Allar eignir sem losna eru í virku ferli að fara til annarra nota nema ákveðið sé að selja þær. „FSRE vinnur að því að skoða hvaða möguleikar séu í stöðunni fyrir nokkrar eignir á höfuðborgarsvæðinu með þróun byggðar í huga. Ekki er þó tímabært að fjalla um ákveðnar eignir í því sambandi, þar sem vinna við þá þróun stendur yfir.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert