Íbúarnir vilja að tvístefna verði á Sólvallagötu

Hússtjórnarskólinn er í hópi margra glæsihúsa við Sólvallagötu.
Hússtjórnarskólinn er í hópi margra glæsihúsa við Sólvallagötu. mbl.is/Árni Sæberg

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavík hefur samþykkt að tvístefnuakstur verði á Sólvallagötu, milli Hofsvallagötu og Hólatorgs. Þar með snýr ráðið við samþykkt frá í sumar, þar sem ákveðið var að einstefna yrði á umræddum vegarkafla. Þetta er gert í kjölfar könnunar sem gerð var meðal íbúa í hverfinu.

Í greinargerð skipulagsstjóra Reykjavíkur með tillögunni kemur fram að á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 28. júní 2023 var samþykkt tillaga þess efnis að Sólvalla- og Ásvallagata yrðu einstefnugötur.

Í kjölfar samþykktarinnar bárust ýmsar ábendingar frá íbúum þar sem lýst var ýmist stuðningi eða andstöðu við þá niðurstöðu. Var því tekin ákvörðun um að kanna hug íbúa í götunum gagnvart breytingunum, en síðast var slík könnun gerð árið 2017. Íbúum var send könnun með sms-skilaboðum. Einnig var bréf borið í hús til þeirra íbúa sem ekki náðist í með sms-skilaboðum. Skilaboð sem komust til skila voru 188 og bréf sem voru borin út voru 192 talsins.

Afgerandi niðurstaða

Niðurstaða könnunarinnar er nokkuð afgerandi segir skipulagsstjóri. Íbúar Ásvallagötu voru hlynntir því að gatan væri einstefnugata líkt og ráðið samþykkti 28. júní síðastliðinn. Í póstkönnuninni voru 80% íbúa Ásvallagötu fylgjandi einstefnu til vesturs í þeirri götu en meðal þeirra sem tóku þátt í gegnum sms-könnunina var hlutfallið 70%.

Íbúar Sólvallagötu voru aftur á móti langflestir á því að gatan ætti að vera tvístefnugata áfram. Meðal íbúa Sólvallagötu voru 90% þeirra sem tóku þátt í póstkönnun og 85% þeirra sem tóku þátt í sms-könnuninni fylgjandi því að hafa Sólvallagötu áfram tvístefnugötu.

Húsin við Sólvallagötu voru byggð á fyrri hluta síðustu aldar og eru flest hin glæsilegustu. Sama má segja um fjölmörg hús í nágrenninu enda eru höfundar þeirra nafntogaðir húsameistarar.

Samgöngustjóri gerði það enn fremur að tillögu sinni að heimilt verði að leggja samsíða við götukant sunnan til í Sólvallagötu. Var það samþykkt. Í samræmi við umferðarlög hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði er minnt á að við afgreiðslu tillögu um einstefnuakstur á Sólvallagötu í júní í sumar hafi verið lagt til að tillögurnar yrðu kynntar íbúum og þeim gefinn kostur á að tjá sig um þær áður en þær yrðu teknar til endanlegrar afgreiðslu. Fulltrúar meirihlutans hafi hins vegar fellt þá tillögu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert