Utanríkisráðuneytið staðfestir að 14 Íslendingar í Síerra Leóne séu óhultir vegna átaka sem brutust út í höfuðborg landsins Freetown í nótt.
Meðal Íslendinganna eru tveir starfsmenn sendiráðs Íslands í Freetown og tveir fjölskyldumeðlimir þeirra.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um brottflutning Íslendinganna en utanríkisráðuneytið og starfsfólk sendiráðsins fylgist náið með stöðu mála, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Stjórnvöld í Síerra Leóne tilkynntu um tilraunir þungvopnaðra manna til þess að brjótast inn í vopnageymslu hersins í nótt. Einnig hafi verið ráðist á nokkur fangelsi í borginni og fangar frelsaðir eða numdir á brott.
Útgöngubann er í öllu landinu til þess að gefa hernum rými til þess að athafna sig, að því er utanríkisráðuneytið vitnar í tilkynningu stjórnvalda þar í landi.