Lítil flokkspólitísk átök um skipulag

Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur og höfundur bókarinnar Samfélag eftir máli.
Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur og höfundur bókarinnar Samfélag eftir máli. Mbl.is/Arnþór Birkisson

Haraldur Sigurðsson, höfundur bókarinnar Samfélag eftir máli, sem fjallar um skipulag Reykjavíkur, bæja og þorpa á Íslandi á 20. öldinni, viðurkennir að það hafi, út frá umræðu um skipulagsmál í dag, komið sér á óvart hversu lítil flokkspólitísk átök hafi verið fyrr á tíð um skipulag og þróun.

„Í Reykjavík voru sannarlega átök um húsnæðismálin, uppbyggingu félagslegs húsnæðis og útrýmingu bragganna og fleira. Minnihlutaflokkarnir gagnrýndu meirihlutann, það er Sjálfstæðisflokkinn, fyrir seinagang í húsnæðismálum og gerðu hann ábyrgan fyrir stöðugum húsnæðisskorti enda fjölgaði fólki hratt og mikill aðflutningur var jafnan til bæjarins,“ segir Haraldur.

„Á hinn bóginn er ekki hægt að sjá á skráðum heimildum að mikill ágreiningur hafi verið um endurskipulagningu miðbæjarins, skipulag einstakra íbúðarhverfa eða þá gatnaskipulag einkabílsins. Raunar voru það fremur embættismenn borgarinnar og Skipulags ríkisins sem héldu uppi gagnrýni og vöruðu oft við útþenslu byggðarinnar, að byggðin væri of dreifð og kostnaðarsöm og að það væri of mikil áhersla á sérbýlishús í stað fjölbýlishúsa.“

Haraldur fjallar ítarlega um flugvöllinn í Vatnsmýrinni í bókinni. Myndin …
Haraldur fjallar ítarlega um flugvöllinn í Vatnsmýrinni í bókinni. Myndin er tekin ​í Vatnsmýri á flugdegi á fyrri hluta 7. áratugar. Horft til suðvesturs eftir flugbraut sem nú hefur verið aflögð. Í þeim drögum að aðalskipulagi sem voru til umræðu vorið 1964 var gengið út frá því að Reykjavíkurflugvöllur yrði óbreyttur á næstu árum. Haft var eftir Geir Hallgrímssyni borgarstjóra í Morgunblaðinu að í skipulagsvinnunni hefði þó einnig verið kannað hvernig „flugvallarsvæðið yrði notað, ef starfsemi legðist þar niður“.


Einnig var nokkuð góð samstaða, að því er virðist, um aðalgatnakerfið sem þjónaði hagsmunum einkabílsins og eins konar „þjóðarsátt“ ráðandi stétta um að það væri réttur hvers manns, og þá einkum heimilisföðurins, að eiga sína eigin bifreið. „Blöð minnihlutaflokkanna, Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn, töluðu þó ívið meira fyrir almenningssamgöngum en Morgunblaðið eða þá Vísir en varla er hægt að tala um stóran ágreining í þeim efnum. Þannig var sofnað snemma á verðinum gagnvart eflingu og framþróun almenningssamgangna, sem voru raunar mjög öflugar alveg fram undir 1970.“

Treystu fagmönnunum

– Treystu stjórnmálamenn þá fagmönnunum?

„Í stórum dráttum virðast þeir hafa notið mikils trausts. Einar Sveinsson arkitekt, sem átti stóran þátt í að móta ásýnd Reykjavíkur á eftirstríðsárunum, naut örugglega mikils trausts í sínum störfum. Eins aðrir sem komu á eftir honum og líka þeir ráðgjafar sem komu að aðalskipulaginu á 7. áratugnum. Veruleg gagnrýni á stefnu borgarinnar í skipulagsmálum verður ekki áberandi fyrr en seint á þeim áratug. Þetta traust á fagmönnum birtist ef til vill í því að áherslur hins hægrisinnaða meirihluta voru oft á tíðum býsna félagslega sinnaðar en réðst örugglega líka af hugarfari borgarstjóra eins Gunnars Thoroddsen, Auðar Auðuns og Geirs Hallgrímssonar.“

Í dag eru átök um skipulagsmál miklu flokkspólitískari og segir Haraldur þau átök meira afgerandi hérlendis en víðast hvar annars staðar. „Þó manni finnist að það eigi ekki endilega að vera þannig.“

Um 1957, fólk að bíða eftir strætó í rigningu á …
Um 1957, fólk að bíða eftir strætó í rigningu á Lækjartorgi. Ljósmynd/Gunnar Rúnar Ólafsson


Átökin sem einkenndu tímabilið sem er undir í bók Haraldar eru hins vegar mikil milli ríkis og borgar og ljóst að borginni þótti ríkið, alla vega á köflum, helst til frekt til fjörsins. Haraldur nefnir flugvallarmálið í því sambandi en hann kemur vel inn á það í bókinni.

„Þau átök snerust ekki síst um það hver hefði skipulagsvaldið í borginni. Samkvæmt skipulagslögum frá 1921 hafði ríkið og ríkisskipuð nefnd vald til að gera skipulagstillögur fyrir öll sveitarfélög í landinu, þar með talið Reykjavík, en gerð var lagabreyting 1932, að frumkvæði þingmanna Reykjavíkur, sem tók það vald til baka um tíma, sem var svo aftur fært ríkinu með annarri breytingu 1938. Um það leyti hófust allmikil átök um skipulagsvaldið í Reykjavík sem lauk ekki fyrr en 1946, þegar sátt náðist. Ekki einfölduðu hernámið og flugvallargerð Breta málið. Bygging herflugvallar olli miklum titringi í bænum. Herstjórnin talaði einkum við ríkið um eignarnám á landinu í Vatnsmýri og fleira er viðkom þróun flugvallar. Upphafs­punktur umræðunnar um framtíð Reykjavíkurflugvallar og mögulega nýja staðsetningu hans, eins og við þekkjum hana í dag, var hins vegar árið 1957 og síðan hefur verið nokkur samfella í þeirri umræðu og oft góð þverpólitísk samstaða um málið innan borgarstjórnar.“

Nánar er rætt við Harald um bókina og skipulagsmál í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert