Segist þakklát lögreglu fyrir viðbrögðin

Arndís Anna var handtekin á föstudagskvöld.
Arndís Anna var handtekin á föstudagskvöld. mbl.is/Hákon

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segist þakklát lögreglu fyrir viðbrögð þeirra og fagmennsku er hún var handtekin á föstudagskvöld á skemmtistaðnum Kíkí queer bar í miðborg Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá henni á Facebook. Þar segir hún meðal annars að það að lögreglan bregðist skjótt við útkalli frá hinsegin skemmtistað ylji henni um hjartaræturnar „í öllum þessum ósköpum“.

Tilkynning Arndísar Önnu í heild sinni

Ég brá mér á skemmtistað á föstudagskvöld, eins og gengur og gerist, og fór á einn minn uppáhaldsstað, Kiki. Ég fór á salernið og var búin að vera þar sjálfsagt í talsverðan tíma þegar dyraverðir opna hurðina. Mér brá við þetta og við að það stæði til að bera mig út með valdi, þegar mér fannst ekki tilefni til. Ég hef skilning á því að starf dyravarða á skemmtistöðum sé erfitt og ekki síst með fullt hús af fólki í misjöfnu ástandi, þó mín upplifun hafi verið sú að þarna hafi framganga þeirra verið óþarflega harkaleg og niðurlægjandi. Ég hef talað við fyrirsvarsmann staðarins sem bað mig afsökunar fyrir þeirra hönd, sem mér þykir afar vænt um.

Ég er enn fremur þakklát lögreglunni fyrir þeirra viðbrögð og fagmennsku, og fyrir alúðina sem þau sýndu mér í kjölfarið, enda komst ég í talsvert uppnám við þessar aðfarir. Það að lögreglan taki útkall frá hinsegin skemmtistað alvarlega, hvers eðlis sem það er, og bregðist svona skjótt við er sérstaklega mikilvægt og yljaði það mér um hjartaræturnar í öllum þessum ósköpum.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka