Stökk út um gluggann til að flýja eldinn

Frá vettvangi í Stangarhyl í morgun.
Frá vettvangi í Stangarhyl í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Aðeins ein flóttaleið stóð til boða þegar eldur varð á annarri hæð í Stang­ar­hyl 3 í Árbæ í morg­un. Einn íbúi greip til þeirra ráða að stökkva út um glugga til að koma sér undan. Annar íbúi, erlendur verkamaður á fimmtugsaldri, liggur enn þungt haldinn á spítala eftir brunann.

Sex manns búa á efri hæðinni, allir erlendir verkamenn.

Guðjón Ingason, aðstoðarvarðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að allir íbúar hæðarinnar nema einn hafi verið búnir að koma sér úr húsnæðinu þegar slökkvilið bar að. Sá maður hafi verið í því rými þar sem eldurinn kom upp.

„Ringulreið“ þegar slökkvilið bar að

„Það var töluverð ringulreið á staðnum,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is og bætir við að tveir slökkviliðsmenn hafi þá stormað inn í húsnæðið og sótt manninn, sem liggur nú þungt haldinn á spítala. 

Þrír komust út úr húsinu áverkalausir, en einn hlaut reykeitrun og annar hlaut áverka eftir að hafa stokkið út um glugga.

„Annar þeirra stökk þarna fram af út úr glugga á annarri hæð og meiddist eitthvað við það. Hinn hafði nú komið sér út en var þó með einhverja reykeitrun,“ segir hann en mennirnir voru því einnig fluttir til aðhlynningar.

Aðeins ein flóttaleið

Guðjón segir að slökkvistarfið hafi gengið tiltölulega vel fyrir sig. Eldurinn náði ekki að dreifa sér mikið áður en slökkviliðið slökkti í honum. Aftur á móti myndaðist mikill reykur.

Aðspurður segist hann ekki vita hvort brunavarnir í húsnæðinu hafi verið í góðu standi. Það sé lögreglunnar að meta það.

„Ég veit ekki með sjálfar brunavarnirnar. Það var í það minnsta engin flóttaleið nema þessi eini útgangur. Þetta var að minnsta kosti ábótavant hvað það hefur upp á það að gera,“ segir hann en bendir þó á að brunavarnarveggur skilji aftur á móti að þann hluta húsnæðisins þar sem eldsvoðinn varð frá hinum hluta húsnæðisins.

Í kvöldfréttum Rúv í kvöld var greint frá því að umsókn hefði verið samþykkt árið 2002 um að breyta efri hæð hússins í húsvarðaíbúð, með því skilyrði að svalir yrðu byggðar við húsið. Svalirnar voru aftur á móti aldrei byggðar.

Mikill reykur varð vegna eldsvoðans.
Mikill reykur varð vegna eldsvoðans. Ljósmynd/Aðsend
Bruni við Stangarhyl 3.
Bruni við Stangarhyl 3. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert