Þrír fluttir á slysadeild vegna bruna

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu vegna bruna í Stangarhyl í Árbæ í Reykjavík í morgun. Þrír voru fluttir á slysadeild, þar af er einn þungt haldinn að sögn Stefáns Kristinssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. 

Að sögn Stefáns inniheldur húsið litlar leiguíbúðir og bárust upplýsingar um að fólk væri hugsanlega að stökkva út um glugga á húsinu. 

Sækja þurfti þann sem liggur þungt haldinn á slysadeild inn í húsið en aðrir komust út að sjálfsdáðum að sögn Stefáns. 

Eldurinn kviknaði klukkan 5:50 og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn. Búið er að slökkva eldinn og verið er að reykræsta. Þá er unnið að því að koma fólki fyrir að sögn Stefáns. 

Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir. 

Uppfært 08:05:

Þrír voru fluttir á slysadeild en ekki fjórir líkt og áður sagði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert