Áhyggjur af því að deilur séu að magnast

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Arnþór

„Við höfum haft dálitlar áhyggjur af því að það séu að magnast einhverjar deilur á milli fólks sem geta leitt til þess að það verða svona alvarlegar árásir sem koma á okkar borð,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.

Fjórir voru handteknir og færðir í varðhald vegna hnífa­árás­ar í Grafar­holti föstudagsmorgun en þeim hefur öllum verið sleppt. 

Til skoðunar er hvort árásin tengist hnífstunguárás á Litla-Hrauni og skotárás í Úlfarsárdalnum.

Engin ákvörðun um gæsluvarðhald

„Við höfum bara haldið áfram að rannsaka það mál og eftir atvikum hafa verið handtökur og yfirheyrslur en það er engin ákvörðun um gæsluvarðhald,“ segir Grímur um árásina í Grafarholti.

Hann kvaðst ekki vera með upplýsingar um hversu margir hafi verið handteknir vegna málsins. 

„Í svona rannsóknum, þá er bæði verið að tala við vitni og stundum þarf að handtaka og stundum eru boðanir. Það er bara verið að vinna í yfirheyrslum.“

Er þetta umfangsmikið mál?

„Já, svona almennt séð í árásum þar sem beitt er vopnum – þau eru umfangsmikil. Þau taka mikinn tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert