Ákærður fyrir hrottafengna árás

Embætti héraðssaksóknara fer fram á að gæsluvarðhald yfir manninum verði …
Embætti héraðssaksóknara fer fram á að gæsluvarðhald yfir manninum verði framlengt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákæra hefur verið gefin út á hendur karlmanni sem grunaður er um hrottalegt ofbeldi gagnvart fyrrverandi kærustu sinni í skóglendi í ágúst. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

Samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurði sem birtur var í síðasta mánuði mátti lesa óhugnanlegar lýsingar á ofbeldi mannsins gegn konunni, en fyrir tilviljun átti gangandi vegfarandi leið um og kallaði til ofbeldismannsins, sem lét sig þá hverfa. 

Gæsluvarðhald yfir manninum átti að renna út í dag en embætti héraðssaksóknara hefur farið fram á að það verði framlengt um fjórar vikur. 

Héraðsdómur hefur ekki staðfest varðhaldskröfuna.

Hefur sætt gæsluvarðhaldi í 12 vikur

Maðurinn, sem grunaður er um að hafa ráðist að konunni og ítrekað lamið og sparkað í hana, hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan 4. september.

Er hann einnig grunaður um að hafa reynt að kyrkja kon­una og haldið henni með kyrk­ing­ar­taki þar sem hún var með höfuðið und­ir vatni í nær­liggj­andi læk. 

Vitni sem átti leið eft­ir stíg í skóg­lend­inu varð var við árás­ina og sagðist hafa séð mann lemja konu og stappa ofan á höfði henn­ar. Lýsti vitnið því að hafa séð mann­inn beygja sig niður að kon­unni og byrja að kyrkja hana og sagt: „Á ég ekki bara að svæfa þig, klára þetta núna?“

Sagðist vitnið hafa kallað til þeirra og þá hafi maður­inn litið upp, séð vitnið og staðið upp og hlaupið af vett­vangi.

Kon­an var nef­beins- og and­lits­brot­in eft­ir árás­ina og með opin sár á höfði, marga mar­bletti á höfði, hálsi og víðar um lík­amann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka