Lögreglan hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir einum manni í tengslum við hnífstunguárásina í Grafarholti á föstudagsmorgun. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
„Við erum að fara með einn aðila fyrir dómara í kvöld þar sem verður krafist gæsluvarðhalds yfir honum,“ segir Grímur við mbl.is.
Fjórir voru handteknir og færðir í varðhald í kjölfar hnífsstunguárásarinnar en þeim hefur öllum verið sleppt. Einn til viðbótar var síðan handtekinn og það er sá aðili sem leiddur verður fyrir dómara í kvöld.
Grímur segir að yfirheyrslur séu enn í gangi vegna árásarinnar í Grafarholti og þá eru til rannsóknar hvort sú árás tengist hnífstunguárás á Litla-Hrauni í síðustu viku og skotárás í Úlfarsárdal í byrjun mánaðarins.