Frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, um tímabundinn stuðning til greiðslu launa til Grindvíkinga vegna náttúruhamfaranna í Grindavík var samþykkt á Alþingi í dag.
Frumvarpið var samþykkt með 46 atkvæðum en 16 þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.
Markmið laganna er að vernda afkomu einstaklinga með því að tryggja laun þeirra upp að ákveðnu hámarki. Markmið laganna er sömuleiðis að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks þannig að sem flest þeirra sem vinna í Grindavík haldi störfum sínum. Hámarksgreiðsla er 633 þúsund krónur á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð.
Lögin gilda frá og með 11. nóvember síðastliðinn og út febrúar á næsta ári.