Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að gerð varnargarða gangi vel. Líklega sé verkefnið á undan áætlun. Unnið er að því að fegra útlit varnargarðanna svo þeir falli betur inn í umhverfið.
„Við erum svona heldur á undan áætlun. Við skiptum þessu í sex verkstaði og það er verið að vinna á þeim á sama tíma, nánast flestum, og garðurinn sem er fyrir ofan virkjunin, eða upp í skarðinu fyrir ofan virkjunina, hann er mjög langt kominn. Það er bara verið að vinna í að hækka hann en fyrsti áfanginn er kominn,“ segir Víðir.
Nefnir hann sem dæmi að varnargarðurinn sunnan við Sýlingarfell og vestan við Sundhnúkafell sé mjög langt kominn.
Hann segir vinnuna ganga samkvæmt áætlun en að ekki sé komin endanleg tímasetning á það hvenær verkinu ljúki. Miðað við tímalínuna sem þeir hafa sett sér þá er verkið að verða hálfnað, eða í það minnsta er rúmlega þriðjungur þess lokið.
„Það er verkfundur núna á miðvikudaginn og þá fáum við stöðuna og uppfærða tímalínu. Þá sjáum við hvort að við séum ekki aðeins á undan [áætlun] eins og við vorum fyrir helgina,“ segir Víðir.
Almannavarnir hafa unnið með umhverfisstofnun og landlagshönnuð til að móta útlit garðanna þar sem þeir eru mest áberandi. Verkefni landlagshönnuðsins felst í því að tryggja að yfirborð garðanna falli sem mest að umhverfinu með því til dæmis að hlaða á þá hrauni og öðru sem fellur inn í umhverfið „Þannig að þetta verði ekki alveg forljótt kvikindi þegar þessu er lokið,“ segir Víðir kíminn.
Í varnargörðunum verða nokkur göt sem verður fljótt að fylla í ef þörf krefur. Þessi göt gætu verið hjá stöðum eins og Grindavíkurveginum. Þetta mannvirki sem verið er að reisa er svo líklega ekkert á förum á næstunni þó ekki byrji að gjósa.
„Það segir í lögunum að svona varnaraðgerða sem gripið er til, samkvæmt þeim lögum sem sett voru um daginn, að þá sé það þannig að það eigi að fara í aðgerðir til að draga úr áhrifum þegar að ekki er lengur talin þörf á honum (garðinum). En við erum að fara í langt umbrotatímabil á Reykjanesskaganum þannig ég sé nú ekki alveg fyrir mér að þessi garður verði færður eitt né neitt,“ segir Víðir.