Kannast ekki við fordæmi

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, var handtekin á föstudag.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, var handtekin á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segist í samtali við Morgunblaðið ekki kannast við nein dæmi þess efnis að þingmaður hafi verið handtekinn áður.

Eins og mbl.is greindi frá í gær var Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata handtekin síðasta föstudag á skemmtistaðnum Kíkí queer bar.

„Ég get ekki á þessu stigi nefnt nein dæmi þess að þingmaður hafi verið handtekinn enda þyrfti það mál eitt og sér ekki að berast inn á borð þingsins,“ segir Ragna í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

„Stjórnarskráin veitir ekki þingmanni friðhelgi fyrir handtöku eða öðrum rannsóknaraðgerðum lögreglu. Ekki er um neitt verklag að ræða hjá Alþingi ef um er að ræða slíkar aðgerðir,“ segir Ragna.

Friðhelgi alþingismanna

Tekur Ragna einnig fram að mælt sé fyrir um friðhelgi alþingismanna í stjórnarskránni. Þegar Alþingi er að störfum má ekki setja alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á hendur honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.

Ekki náðist í eigendur Kíkí í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri vísaði á Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu en ekki náðist í hana. Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins sagði í samtali við Morgunblaðið að ráðuneytið hefði ekki afskipti af málum sem væru í rannsókn eða til meðferðar hjá lögreglu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka