Mjög ólíklegt að það gjósi í Grindavík

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur ræddi við mbl.is um jarðhræringarnar á Reykjanesi.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur ræddi við mbl.is um jarðhræringarnar á Reykjanesi. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur mjög ólíklegt að gosi komi upp í Grindavík og hann telur líklegast að ef það byrji að gjósa þá verði það norðan til á Sundhnúkum eða í Illahrauninu.

„Í augnablikinu er mesta skjálftahrinan búin en það er enn þá landris og einhver gliðnun er í gangi. Ef þetta endar með gosi þá finnst mér líklegra að það komi annað hvort norðan til á Sundhnúkum eða í Illahrauninu en ég hef það svona á tilfinningunni að þetta lognist útaf í rólegheitunum,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Þessi hrina gæti verið að fjara út

Þorvaldur sagði í samtali við mbl.is á dögunum að það gæti dregið til tíðinda í lok mánaðarins. Spurður hvort hann sé ennþá sama sinnis segir hann:

„Það hefur hægst aðeins á landrisi og það getur tekið tíma að ná fyrri hæð. Þegar og ef það gerist þá getur vissulega dregið til tíðinda. Mér finnst það jákvæð þróun að það hefur dregið talsvert úr skjálftavirkni. Hún er miklu minni heldur en hún var. Þessi hrina gæti verið að fjara út en ef landrisið heldur áfram þá þarf fimm til tíu daga til viðbótar til að ná fyrri hæð. Þá gæti hugsanlega gerst eitthvað en það þarf ekki að vera,“ segir Þorvaldur.

Eðlilegt að kvikugangurinn sé breiðari

Samkvæmt nýjustu líkönum Veðurstofunnar gæti kvikugangurinn verið breiðari en áður var áætlað og storknun hans á breiðasta hluta gangsins gæti tekið nokkra mánuði. 

„Þetta er allt byggt á líkana reikningi og það þarf að taka öllum niðurstöðum með ákveðnum fyrirvara. En ef við gefum okkur það að það sé kvikugangur og það er búið að vera gliðnun síðan 10. nóvember þá eðlilegt að kvikukangurinn sé breiðari. Þessi kvika er ekkert að fara kólna einn, tveir og þrír og það getur tekið hana einhverjar vikur til viðbótar að stífna. Það er bara jákvætt ef hún hefur kólnað eitthvað og þá sérstaklega efri hlutinn þá getur hún haldið aftur að því sem er fyrir neðan,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur telur mjög ólíklegt að það gjósi í Grindavík og hann segir allt benda til þess að ef það fari að gjósa þá verði það norðan við Sundhnúka sem muni þá minnka hugsanleg áhrif á Grindavík.

„En að sama skapi aukast þá hugsanleg áhrif á virkjunina við Svartengi og Bláa lónið en þá eru garðarnir komnir til varnar. En þá ertu kominn norðan megin við vatnaskilin og þá getur hraun farið að flæða til norðurs. Og hvað er fyrir norðan? Vogar og Reykjanesbrautin. Þá þyrfti að fara að huga að varnaraðgerðum þar,“ segir Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka