Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, telur sáralitlar líkur á því að eldgos hefjist í Grindavík. „Ég myndi segja að það væru eiginlega engar líkur á að það gysi í Grindavík, en það gæti gosið í Hagafelli.“
Ármann segir jarðskorpuna nú vera að róast eftir þá miklu gliðnun sem varð fyrir tveimur vikum. Héðan í frá ættu menn ekki að hafa miklar áhyggjur af Grindavík hvað viðkemur eldvirkni. Enn gætu þó orðið einhverjir skjálftar á svæðinu. Grindavík er í jaðri eldstöðvakerfisins, sem hefur í för með sér að ólíklegra er að til goss komi þar.
Ármann segir hættulegasta staðinn nálægt bænum vera Hagafell. Flest gos hafi komið upp þar. „Ef eitthvað gerist þá gerist það í Hagafelli,“ segir hann.
Ef gjósa færi í Hagafelli hefðu Grindvíkingar tíma, sennilega klukkutíma eða einhverja daga, áður en hraunið rynni að bænum.
Gerist ekkert við Hagafell gerist eitthvað í Eldvörpum, að sögn Ármanns. Þar er miðjan á kerfinu sem er viðkvæmust. Ármann telur því mestar líkur á að gerist eitthvað á annað borð verði það þar. „Nú erum við búin að hreyfa jaðrana. Næst er það miðjan. Þá fer þetta allt út í Eldvörp.
Fyrir mér er það sjálfgefið [að til goss komi í Eldvörpum]. Allt annað væri óeðlilegt. Það kemur einstöku sinnum á jöðrunum en það er ekki normið. Normið er miðjan á kerfinu,“ segir hann.
Að mati hans er hættan sem steðjar að Grindavíkurbæ lítil. Þó sé verk að vinna áður en fólk getur flust heim, innviðirnir séu enn í ólestri í bænum. Eftir nokkra mánuði, þegar búið er að gera við, sé að hans mati ekkert því til fyrirstöðu að Grindvíkingar fari heim til sín.