Þensla heldur áfram og aflögun mælist enn

Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni …
Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni og í suð-suðvestur undir Grindavík. Kort/mbl.is

Síðustu daga hafa mælst um 500 skjálftar á sólarhring nærri kvikuganginum á Reykjanesskaga. Áfram er mest virkni við Sýlingarfell og Hagafell. Um miðnætti hófst jarðskjálftahviða nærri Sýlingarfelli og mældust um 170 skjálftar í hviðunni sem stóð yfir í um klukkustund. Voru þeir flestir smáskjálftar, en sá stærsti mældist 3 að stærð.

Út frá aflögunargögnum frá GPS-mælum og gervitunglum sést að þensla heldur áfram við Svartsengi og að aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó mældust engar breytingar á GPS mælingum í tengslum við jarðskjálftahrinuna í nótt. Þetta er meðal þess sem kemur fram hjá Veðurstofu Íslands um stöðu mála á Reykjanesskaga.

Gæti verið vísbending um aukinn þrýsting

Segir þar að bæði skjálfta- og aflögunargögn bendi til þess að innflæði kviku haldi áfram, bæði undir Svartsengi og í miðju kvikugangsins. Skjálftahrinan í nótt gæti verið vísbending um aukinn þrýsting í ganginum.

Í ljósi þessa og samtúlkun nýjustu gagna telur Veðurstofan að áfram séu líkur á eldgosi yfir kvikuganginum á meðan innflæði kviku heldur áfram. Mesta hættan á að kvika komi upp er áfram á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells.

Horft úr norðri yfir Sundhnúkagígaröðina, sem liggur til suðurs að …
Horft úr norðri yfir Sundhnúkagígaröðina, sem liggur til suðurs að Grindavík. Stóra-Skógfell, Sýlingafell og Þorbjörn hægra megin við miðju. Ljósmynd/Siggi Anton

Storknun gæti tekið nokkra mánuði

Frekari líkanreikningar hafa verið gerðir til að áætla umfang kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember. Þeir líkanreikningar benda til þess að hluti kvikugangsins gæti verið breiðari en áætlað var í fyrstu. Gróft áætlað gæti storknun breiðasta hluta gangsins því tekið nokkra mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka